Rösti-kartöflur

Rösti-kartöflur eru mjög algengar á diskum ekki síst germanskra þjóða og Svisslendingar líta á þær sem einn af sínum þjóðarréttum. Það er einfalt að gera Rösti-kartöflur en menn verða þó að taka tillit til helsta álitaefnisins. Á að sjóða kartöflurnar fyrst eða ekki? Um það er deilt meðal áhangenda Rösti. Við sjóðum þær aðeins, þær verða þó enn að vera fasta í sér. Um tíu mínútna suða ætti að duga á meðalstórar kartöflur.

  • 1 kg kartöflur, flysjaðar og soðnar í 10 mínútur
  • smjör og olía
  • salt og pipar

Best er að nota kartöflur sem hafa fengið að kólna vel eftir suðuna. Rífið þær niður á grófa hluta rifjárnsins. Mótið platta eða stóra „pönnuköku“ sem þekur steikarpönnuna.

Hitið 2-3 msk af smjöri á pönnu ásamt olíu. Það má ekki spara smjörið um of (þótt það sé freistandi) því þá verður steikingin ekki nógu góð. Steikið kartöflukökuna þar til hún er orðin stökk og fín öðrum megin. Snúið henni þá við.

Það getur verið vandasamt og má reyna t.d. að renna henni yfir á disk fyrst af pönnunni og snúa henni síðan við. Ef hún rifnar í sundur verður bara að hafa það. Bragðið er það sama.

Saltið og piprið eftir smekk.

Deila.