Pasta og skelfiskur er afskaplega ítalskt og í boði á öllum betri veitingahúsum við ítölsku sjávarsíðuna. Við fengum þessa uppskrift hjá Leifi á La Primavera eftir að hafa fallið fyrir henni í nýlegri heimsókn þangað.
Þetta er hátíðarpasta þar sem við fáum ekki alltaf ferskan krækiling en þegar er til er það ofboðslega gott. Það er hins vegar hægt að fá frosin krækling t.d. í Hagkaup, sem er ekki í neinum bragðlegi, sem vel má nota í staðinn.
Best er að undirbúa sig vel og hafa allt við höndina áður en byrjað er og vera búinn að saxa allt og hreinsa kræklinginn. Hægt er að nota lime í staðin fyrir sítrónu og kóríander í staðin fyrir steinselju til að fá annað bragð í réttinn.
400 g spaghetti, þurrkað
smjör
ólífuolía
1 kg kræklingur
4-6 stk hvítlauksgeirar
Chili,þurrkað
Chili,einn ferskur belgur, saxaður
1 búnt flatblaðssteinselja (eða venjuleg ef hún finnst ekki)
1 stk sítróna
2 stk tómatar, kjarnhreinsaðir og saxaðir
1 dl hvítvín
Maldon salt
Sjóðið spaghettí í miklu vel söltu vatni. Best er að nota þurrkað pasta í þennan rétt svo auðveldara sé að ná því stinnu undir tönn. Lagið sósuna á meðan spaghettíið sýður.
Hitið ólífuolíu á víðri þykkbotna pönnu. Setjið hvítlauk og chili, þurrkað og ferskt, á pönnuna og steikið á háum hita án þess að brenna hvítlaukinn, Hellið hvítvíni og sítrónusafa út á og blandið steinselju og tómötum saman við. Bætið krækling útí og sjóðið undir loki í ca, 3 minútur eða þar til að hann er eldaður og allur opnaður
Lækkið hitann. Blandið spaghetti saman við sósuna ásamt smjöri. Hrærið öllu saman og kryddið með salti ef með þarf.
Með þessu gott ítalskt hvítvín t.d. Banfi San Angelo Pinot Grigio eða hið suður-ítalska A Mano Fiano Greco.