René Muré Cote de Rouffach Gewurztraminer 2007

Muré-fjölskyldan er með rótgrónustu vínræktendum í Alsace í Frakklandi, hefur ræktað vín þar frá því um miðja sautjándu öld. Hún hefur aðsetur sitt í Rouffach suður af Colmar og er aðalsmerki hennar stílhrein og vönduð vín þar sem sérkenni hverrar þrúgu njóta sín til fulls.

Vínbúgarður fjölskyldunnar heitir Clos st. Landelin en einnig hefur Muré-fjölskyldan ræktað sambönd við marga minni vínbændur sem hún kaupir þrúgur af og framleiðir vín úr undir nafninu Cote de Rouffach.

René Muré Cote de Rouffach Gewurztraminer 2007 er dúndurgóður Gewurztraminer, angan vínsins sæt og krydduð í senn með þurrkuðum apríkósum, rósavatni og sultuðum sítrónuberki. Bragðið þykkt og þurrt með þroskuðum og krydduðum ávexti.

Reynið til dæmis með indverskum Hyderabadi Biryani eða indónesískum kókosgrjónum með chilirækjum.

3.658 krónur.

 

Deila.