Banfi Brunello di Montalcino 2004

Brunello-vínin sem ræktuð eru í grennd við þorpið Montalcino suður af Siena í Toskana eru einhverjir helstu aristókratar ítalskrar víngerðar. Brunello er í raun sama þrúgan og sú sem nefnd er Sangiovese víðast hvar í Toskana en á þessu svæði eru skilyrði hennar tiil ræktunar hvað best.

Vínhúsið Castello Banfi er einn þekktasti Brunello-framleiðandi veraldar. Það var stofnað af bræðrunum John og Henry Mariani, Bandaríkjamönnum af ítölskum uppruna, árið 1978 en í  Bandaríkjunum höfðu þeir byggt upp eitt öflugasta víninnflutningsfyrirtæki landsins, Afkomendur þeirra reka nú Castello Banfi en fyrirtækið hefur verið leiðandi í því að auka orðspor Brunello-vínanna.

Castello Banfi Brunello di Montalcino 2004 er enn ungur, þetta er tignarlegt vín með töluverðri eik i nefi, vindlakassa og þroskuðum, sultuðum kirsuberja- og plómuávexti. Kröftugt en vel balanserað í munni með þéttum og fínum tannínum ásamt djúpum súkkullaðiblönduðum ávexti.

Það er æskilegt að umhella þessu víni og það mun halda áfram að batna við geymslu í 5-10 ár.

Með villibráð á borð við hreindýr, gæs og önd.

5.998 krónur

 

Deila.