Veuve-Clicquot Brut

IMG_3446.jpgVeuve Clicquot er nefnt eftir ekkjunni frægu Nicole-Barbe Clicquot-Ponsardin sem tók við fyrirtæknu er eiginmaður hennar lést árið 1806. Hún var þá einungis 27 ára gömul. Í stað þess að einbeita sér áfram að mörkuðum í Frakklandi og Bretlandi hóf hún landnám í Rússlandi og varð kampavín hennar mest selda kampavínið þar í landi í hálfa öld.

Kjallarameistari hennar þróaði fram rémuage -tæknina sem í dag er notuð við alla kampavínsframleiðslu og í stjórnartíð hennar varð fyrirtækið að stórveldi. Er hún lést 1866, 89 ára að aldri, nam ársframleiðslan 3 milljónum flaskna á ári. Nánast ekkert kampavínsfyrirtæki getur státað af jafnmörgum vínekrum í eigin eigu á öllum helstu svæðum Champagne.

Kampavín Veuve Clicquot er auðþekkjanlegt vegna hins gula miða er prýðir flöskurnar á flestum tegundunum.

Það er einmitt brut-kampavínið með gula miðanum, carte jaune , sem hefur verið vinsælasta kampavín á Íslandi um árabil. Það einkennist af háu hlutfalli af Pinot Noir og Pinot Meunier og því að mikið er notað af eldri vínum til að gera kampavínið margslungnara og dýpra en mörg önnur. Tæpur þriðjungur af Chardonnay veitir hins vegar góðan ferskleika. Vínið er djúpt og ávaxtamikið, þarna eru epli og sítrus, og má greinilega finna ristað brioche-brauð og hnetur í ilmi þess. Það freyðir fallega og endist lengi.

6.998 krónur

 

 

Deila.