Joseph Drouhin Laforet Blanc 2007

Hvít Búrgundarvín eru hin upprunalegu Chardonnay-vín þótt oftast sé þrúgunnar ekki getið á flöskumiðanum. Þau algengustu hér á landi hafa verið Chablis-vínin frá norðurhluta Búrgunds og Pouilly-Fuissé frá suðurhlutanum.

Mörg af þekktustu hvítvínum heims eru framleidd í Búrgund, þau eru hins vegar jafnframt einhver dýrustu hvítvín í heimi. Vilji menn njóta góðra Búrgundarvína en jafnframt ekki þurfa að leggja bílverð á borðið verður því að vanda valið vel. Best er yfirleitt að veðja á mjög litla en góða framleiðendur eða þá traustu meðalstóru húsin sem tryggja ávallt bestu mögulegu gæði fyrir verð. Drouhin er í síðari hópnum og hefur unnið sér nafn sem öruggur gæðastimpill á Búrgundarvín, jafnvel þegar einungis er um hefðbundin „Bourgogne générique“ er að ræða.

Laforet Blanc 2007 er ferskt og þægilegt Búrgundarvín, vel gert og vel uppbyggt. Ferskur sítrus í nefi með mildum hnetukeim, mjúkt með mildri  sýru í munni og ágætri lengd. Gott matarvín.

2.498 krónur

 

Deila.