Kjúklingur kölska

Þessi réttur er vinsæll meðal Bandaríkjamanna af ítölskum uppruna og er algengt að sjá útgáfur af honum í bandarískum bókum um ítalska matargerð. Nafnið Pollo al Diavolo er dregið af hinu mikla kryddmagni sem gerir réttinn eldheitan. Hann er þó raunar ekki nærri því eins eldheitur og halda mætti af því að lesa uppskriftina, en vissulega nokkuð kryddaður. Athugið að kryddolíuna þarf að undirbúa daginn áður.

 • 1 kjúklingur
 • 1 dl nýmulinn svartur pipar
 • 2 matskeiðar Dijon-sinnep
 • Í salatið:
 • 2 öskjur kirsuberjatómatar, skornir í bita
 • 1 búnt steinselja, söxuð
 • 1 rauðlaukur, skorin í fínar sneiðar
 • sérriedik eða vínedik
 • ólívuolía
 • Í kryddolíuna:
 • 3 dl ólívuolía
 • 5 grænir chilipiparbelgir, fræhreinsaðir og grófsaxaðir
 • 1 msk þurrkaður rauður chilipipar (hot pepper flakes)
 • 1 msk af reyktu paprikudufti. Þetta krydd heitir á spænsku Pimentos. Ef þið eigið það ekki til er hægt að nota venjulegt paprikukrydd.

Setjið allt í pott og hitið þar til olían fer rétt að krauma, tekur örfáar mínútur. Takið af hitanum og látið standa í um sólarhring. Síið þá olíuna frá.

Geymið hana síðan í lokuðu íláti í ísskáp. Hún er einnig frábær með ýmsu öðru, t.d. nautasteik og ofnbökuðum kartöflubátum.

En svona gerum við kjúklinginn:

Kryddið hann að innan og utan með salti og pipar. Penslið með ólívuolíu og eldið í 200 gráðu heitum ofni í um hálftíma. Blandið saman piparnum, sinnepinu, smá salti og matskeið af ólívuolíu  í skál. Takið þá kjúklinginn út og smyrjið kryddblöndunni á hann. Eldið í um hálftíma í viðbót.

Búið til salat úr tómötunum, steinseljunni og rauðlauknum og dressing úr ólívuolíu og sérríedik ásamt smá salti og pipar.

Berið kjúklinginn fram með salatinu og hellið kryddolíu yfir.

Það þarf ferskt hvítvín með þessu. Góður Chardonnay á borð við Alamos eða Peter Lehmann smellpassar.

 

Deila.