Fischer Gruner Veltliner 2009

Þrúgan Gruner Veltliner er einstök fyrir Austurríki og heillar flesta þá sem henni kynnast. Þegar vel tekst til eru þetta vín sem eru fersk og ljúffeng og geta att kappi við flest önnur hvítvín heims.

Weingut Fischer er í vínhéraðinu Thermenregion sem er nokkrum kílómetrum fyrir sunnan Vínarborg. Þetta er gamalgróið fjölskyldufyrirtæki sem framleiðir vín í efri gæðaflokkum. Vínin hafa verið fáanleg hér í einhvern tíma en Fischer ákvað nýlega að lækka verðið til Íslands hressilega í ljósi þeirra erfiðu aðstæðna sem hér ríkja, ekki síst varðandi gengi krónunnar. Við getum því fagnað því að fá þetta unaðslega vín á verði sem er langt, langt undir því raunverði sem það ætti að vera á. Enda fullyrði ég að þetta séu einhver bestu hvítvinskaupin á landinu í dag.

Fischer Gruner Veltliner 2009 er ungt með kröftugum peru- og mangóávexti. Í nefinu má einnig greina sítrónuís og vott af hvíta piparnum, sem er svo dæmigerður fyrir þessa þrúgu. Bjart og ferskt í nefi, hreint og tært í munni.  

Nýtur sín vel eitt og sér eða með t.d. bleikju eða rauðsprettu.

1.835 krónur. Frábær kaup.

 

Deila.