Grísalundir með tagliatelle

Sólþurrkaðir tómatar, ítölsk skinka og fullt af kryddjurtum eru það sem ráða ferðinni í þessari pastasósu sem er góð ein og sér með pasta en smellpasssar einnig með svínalundum.

Fyrir 4-6

800 g grísalundir

Það er gott að marinera kjötið fyrir steikiningu. Blandið saman  í stórri skál 3 msk ólívuolíu, 2 pressuðum hvítlauksgeirum, 2 tsk þurrkaðri salvíu, 1 tsk þurrkuðu rósmarín, salti og pipar. Veltið lundunum upp úr kryddleginum og geymið i kæli í a.m.k. 3 klukkustundir, helst lengur.

Tagliatelle með norðurítalskri sósu

 • 500 g Tagliatelle
  1/2 dós sólþurrkaðir tómatar í olíu
  1 bréf ítölsk hráskinka, Prosciutto
  1 laukur
  3 hvítlauksgeirar
  1 búnt steinselja
  1 lúka fersk salvíublöð
  1 dl kjúklingasoð (vatn og 1 tsk kjúklingakraftur)
  2,5 dl rjómi/matreiðslurjómi
  salt og pipar.
  ólívuolía

Saxið lauk, hvítlauk, sólþurrkaða tómata, skinkuna, steinselju og salvíu.

Hitið ofninn í 180 gráður.
Hitið olíu á pönnu.
Hitið vatn og sjóðið pasta samkvæmt leiðbeiningum.

Steikið lundirnar þar til að þær hafa tekið á sig góðan lit, 2 mínútur á hvorri hlið. Setjið í fat og inn í ofn í um 10 mínútur.

Bætið smá olíu út á pönnuna ef þarf og steikið laukinn og hvítlaukinn í 3-4 mínútur. Bætið saxaðri skinkunni og sólþurrkuðu tómötunum út á. Steikið áfram í 2 mínútur og bætið þá kryddjurtunum út á. Blandið vel saman og veltið um á pönnunni í um mínútu. Hellið kjúklingasoðinu á pönnuna og sjóðið niður um rúman helming. Hellið rjómanum út á og lækkið hitann. Látið malla í 4-5 mínútur eða þar til sósan hefur þykknað vel. Saltið ef þarf. Piprið vel.

Hrærið tagliatelle saman við sósuna. Skerið lundirnar í sneiðar og berið fram.

Með þessu hentar einfalt en kröftugt ítalskt rauðvín á borð við Caldora Sangiovese.

Deila.