Spaghetti með önd

Það er flest kjöt notað í ítalskar pastasósur og á mörgum svæðum er mjög vinsælt að nota andarkjöt og gera pasta con l’anatra. Oftast er gert ráð fyrir heilum öndum í uppskriftunum en það má vel nota andarbringur, sem fáanlegar eru í flestum stórmörkuðum.

 • 500 g spaghetti
 • 2 andarbringur eða ein heil önd
 • 100 g beikon/pancetta, niðurskorið
 • 2 sellerístilkar, grófsaxaðir
 • 2 gulrætur grófsaxaðar
 • 1 stór laukur saxaður
 • búnt steinselja
 • lúka fersk salvía
 • lúka ferskt timjan
 • 2 lárviðarlauf
 • 4 dl rauðvín
 • 5 dl tómata passata (tómatamauk)
 • ólívuolía
 • Parmesan-ostur

Hitið olíuna í þykkum potti. Steikið beikonið og bætið öndinni/andarbringunum út í pottinn. Brúnið vel. Bætið lauk, gultórum, sellerí og kryddjurtunum saman við og steikið í 3-4 mínútur.

Bætið tómata passata saman við og látið malla í 5 mínútur.

Bætið rauðvíninu saman við og leyfið að malla áfram á miðlungshita í um 30-40 mínútur ef þið notið andarbringur en helmingi lengur ef þið notið heila önd.

Takið andarbringurnar/öndina upp úr pottinum og leyfið að kólna aðeins. Ef þið notið bringur þá saxið þið þær síðan í litla bita. Ef þið notið heila önd þá reytið þið allt kjötið af henni. Skiljið skinnið eftir.

Þrýstið sósunni í gegnum sigti og setjið aftur í pottinn. Hitið sósuna og bætið andarkjötinu saman við. Bragðið til og saltið og piprið ef þarf. Leyfið sósunni að malla í 5-10 mínútur í viðbót.

Eins og með margar ítalskar uppskriftir eru tímasetningar til viðmiðunar. Ef ykkur finnst sósan þurfa lengri tíma þá leyfið þið henni að malla lengur.

Sjóðið pasta samkvæmt leiðbeiningum. Blandið saman við kjötsósuna. Berið fram með nýrifnum Parmesan-osti.

Með þessu gott ítalskt rauðvín, t.d. Isole e Olena Chianti Classico

Deila.