Brio de Cantenac 2004

Brio de Cantenac er „annað“ vín Chateau Cantenac Brown, þ.e. vín af þrúgum sem ná ekki flokkun í „stóra“ vínið yfirleitt vegna þess að um er að ræða yngri vínvið á ekrunum og þann hluta uppskerunnar sem nær ekki fyllsta þroska.

Fyrr á þessu ári heimsótti Jose Sanfins, forstjóri Cantenac Brown, Ísland og gafst mönnum þá kostur á að bera Brio saman við nokkra magnaða árganga af stóra víninu. Brio stóð sig virkilega vel í þeim samanburði og stóð uppi í hárinu ár stóra bróður þótt óhjákvæmilega sé hann minni.

2004 árgangurinn er klassíkur Bordeaux-árgangur það endurspeglast vel í þessu Margaux-víni. Dökk sólber og vindlatóbak, þétt uppbygging, ávöxturinn rammaður vel inn með eik og tannínum. Langt og mikið, enn ungt og má geyma í að minnsta kosti 5 ár. Umhellið 1-2 tímum áður en vínið er borið fram.

Með villibráð, nautakjöti, lambi og önd.

5.299 krónur

 

Deila.