Pfaffenheim Pinot Gris Reserve 2008

Vín úr þrúgunni Pinot Gris frá Alsace geta tekið á sig margvíslegar myndir. Stundum eru þau létt og fersk, stundum feit með sætu. Þetta er vín sem er nær því að falla í síðarnefnda flokkinn.

Vínbændur í Alsace, rétt eins og á fleiri stöðum við Rínarfljót, njóta góðs af því að geta nýtt þrúgurnar á mismunandi þroskastigum og eru þrúgurnar í þessu Réserve-víni tíndar með seinna móti þannig að ávöxturinn er orðinn þroskaður, sætur og hunangskenndur. Þarna eru apríkósur en líka blóm og í munni er það þurrara en maður á von á, þétt, feitt og langt með krydduðum endi. Þetta ræður við flestar sósur með fiski, hvítt kjöt, kæfur og kryddaðan asískan mat.

2.750 krónur. Góð kaup.

 

 

 

Deila.