Maís með Manchego

Maís, lime og Manchego-ostur eiga vel saman.Þetta er gott meðlæti með flestu grilluðu kjöti. Best er að nota ferska maísstöngla en einnig er hægt að nota frosna stöngla eða jafnvel maís úr dós.

Manchego-osturinn er spænskur að uppruna og er hægt að fá í flestum búðum. Ef þið finnið hann ekki er hægt að nota t.d. Pecorino.

  • 6 maísstönglar
  • 1 grænn chilibelgur, fræhreinsaður og fínsaxaður
  • 1 límóna
  • 2 dl rifinn Manchego-ostur
  • 1 lúka graslaukur, fínsaxaður
  • 1 tsk chili-flögur
  • 2 msk smjör
  • ólífuolía
  • salt og pipar

Bakið maísstönglana í um 15 mínútur í 200 gráðu heitum ofni eða grillið. Þegar ferskur maís er eldaður er best að leggja hann í bleyti fyrst þannig að blöðin blotni. Þegar maísinn er tilbúinn eru blöðin hreinsuð af honum. Leyfið stönglunum að kólna aðeins og skafið síðan kornin af stönglunum.

Setjið álpappír utan um ef þið grillið.

Hitið ólífuolíu á pönnu og steikið maískorninn í tæpar fimm mínútur. Bætið smjörinu saman við, saltið og piprið.

Setjið í skál. Rífið hýðið af límónunni með rifjárni og blandið saman við. Pressið safan úr límónunni og blandið saman við. Bætið við rifna ostinum, graslauknum, fínsaxaða chilibelgnum og chiliflögunum. Blandið vel saman og berið fram.

 

Deila.