Nautasteik með kúrbítsböku og Bagnet Ross

Það er hægt að nota nokkrar útgáfur af nautasteik með þessari uppskrift, t.d. Ribeye, lund eða T-bone enda er það meðlætið sem er í aðalhlutverki hér ekki síst sósan sem kemur frá Piemont á Norður-Ítalíu en þar er hún kölluð Bagnet Ross.

Kúrbítsbaka

  • 2 kúrbítar
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 2 msk fínsöxuð steinselja
  • rifinn parmesanostur
  • salt og pipar
  • ólívuolía

Skerið kúrbítinn í um 1/2 sm sneiðar þversum. Hitið olíuna á pönnu. Steikið kúrbítinn, hvítlauk og steinselju í um 5 mínútur á miðlungshita. Saltið og piprið. Setjið bökunarpappír á ofnplötu. Raðið kúrbítssneiðunum upp í fjögur tveggja hæða „blóm“. Sáldrið rifnum parmesan yfir og setjið inn í 180 gráðu heitan ofn í 3-5 mínútur eða þar til að osturinn hefur bráðnað.

Tómatasósa frá Piedmont

  • 2 tómatar
  • 1 paprika
  • 1 sellerístöngull
  • 1 laukur
  • 1 lúka steinselja
  • 1/2 dl hvítvínsedik
  • ólívuolía

Kjarnhreinsið tómatana og skerið í bita. Hreinsið innan úr paprikunni og skerið í bita. Skerið sellerístöngulinn í bita. Setjið allt á pönnu og steikið í um 15 mínútur á miðlungshita.

Setjið í matvinnsluvél og maukið. Saltið og piprið eins og þarf.

Steikið eða grillið kjötið og berið fram með kúrbítsböku og sósunni.

Með þessu eru auðvitað tilvalið að bera fram rauðvín frá Piedmont s.s. Proprieta Sperino Uvaggio

Deila.