Risotto með grænum aspas

Risotto með spergli eða aspas er klassískur ítalskur réttur sem á ítölsku heitir Risotto d’Asparagi. Hér gerum við soðið frá grunni sem er einfaldara en margir halda og margborgar sig.

Risotto

 • 4 dl risottogrjón (Arborio eða Carnarolo)
 • 1 búnt grænn aspas, flysjið og skerið enda af
 • 100 g smjör
 • 2 laukar, fínsaxaðir
 • grænmetissoð
 • 100 g nýrifinn Parmesan

Soðið

 • 2 gulrætur
 • 2 sellerístönglar
 • 2 laukar
 • afskurðurinn af aspasinum
 • lárviðarlauf
 • salt og pipar

Byrjið á soðinu. Hitið um 4 lítra af vatni í stórum potti.

Flysjið gulræturnar, hreinsið utan af lauknum. Skerið í minni bita og setjið í matvinnsluvél. Grófsaxið. Setjið í pottinn og sjóðið niður í 45 mínútur. Síið þá soðið í gegnum grisjuklút eða mjög þunnt sigti. Kreistið vel til að ná sem mestum safa. Sjóðið soðið áfram niður þar til tæpir tveir lítrar eru eftir. Haldið heitu í pottinum.

Skerið apsasinn niður í um hálfs sentimeters þykka bita. Bræðið helminginn af smjörinu á stórri pönnu og mýkið laukinn í um fimm mínútur. Bætið þá aspasbitunum út á og mýkið á miðlungshita í fimm mínútur til viðbótar. Bætið þá hrísgrjónunum út á pönnuna og veltið vel upp úr smjörinu í 2-3 mínútur.

Byrjið nú að ausa heitu soðinu út á pönnuna, 1-2 ausur í einu. Fylgist vel með grjónunum, hrærið reglulega í og passið upp á að ávallt séu þau með nægan vökva. Eftir um 20 mínútur ættu grjónin að vera tilbúin, þau eiga að vera örlítið stökk í miðjunni.

Bætið loks afganginum af smjörinu og Parmesanostinum saman við. Bragðið til með Maldonsalti og nýmuldum pipar. Berið strax fram með góðu brauði, fersku grænu salati og ungu ítölsku hvítvíni, t.d. Santa Cristina Umbria 2010.

Deila.