Pastitsio – grískt lasagna

Ítalír eiga engan einkarétt á lasagna. Raunar telja sumir að orðið lasagna sé dregið af hinu gríska orði lasanon sem merkir koppur. Rómverjur lánuðu orðið og fóru að nota það yfir eldföst mót. Þá gæti orðið einnig komið af öðru grísku orði, laganon, sem er tegund af flötu pasta.

Óháð þessu þá eiga Grikkir sitt eigið „lasagna“ og heitir sá réttur Pastitsio. Það eru ekki notaðar lasagna-plötur heldur hefðbundið pasta t.d. skeljar.

Þá er mikilvægt að nota lambahakk með, biðjið kjötborðið um að hakka niður fyrir ykkur eða kaupið bita af lambi og hakkið sjálf í hakkavélinni. Það þarf síður en svo að vera af dýrasta hluta lambsins.

Þessi uppskrift mettar auðveldlega 6-8 manns.

Hráefni:

Ca. 400 g pasta, t.d. skeljar, slaufur eða Penne

Kjötsósan

 • 500 g nautahakk
 • 500 g lambahakk
 • 800 g tómatar úr dós
 • 2 laukar, fínsaxaðir
 • 4 hvítlauksgeirar, fínsaxaðir
 • 1 dl rauðvín
 • 1 msk kanil
 • 1 tsk óreganó
 • 1 tsk timjan
 • 1/2 tsk Cayennepipar
 • salt og pipar

Sósan

 • 5 dl mjólk
 • 2 dl grísk jógúrt
 • 150 g nýrifinn Parmesan
 • 3 egg, pískuð
 • 1/2 dl hveiti
 • 1/2 tsk múskat
 • 2 msk smjör
 • salt og pipar

Byrjið á því að undirbúa kjötsósuna. Hitið 2-3 msk af ólívuolíu á stórri pönnu eða pottjárnspotti. Mýkið laukin á miðlungshita í um fimm mínútur og bætið þá við lambahakkinu og nautahakkinu. Steikið áfram í 10 mínútur. Hellið víninu út á og sjóðið niður í 2-3 mínútur. Þá er kanil, timjan og óreganó bætt saman við og kjötið eldað áfram í um 5 mínútur. Bætið loks tómötunum út á, saltið og piprið og látið malla í 45 mínútur. Geymið.

Þá er komið að hvítu sósunni eða Béchamel-sósunni. Bræðið smjörið í stórum potti og pískið hveitið saman við. Hellið mjólkinni út í pottinni, pískið vel saman við hveitibolluna og haldið áfram að píska á meðan að mjólkin hitnar og þykknar. Þegar hún er farin að þykkjast vel er múskatkryddi bætt út í ásamt pipar. Þá er helmingnum af rifna ostinum hrært saman við ásamt 1 dl af kjötsósunni. Takið af hitanum og leyfið að standa í nokkrar mínútur.  Blandið þá eggjunum og jógúrtinu saman við og geymið.

Sjóðið pasta en passið að fullsjóða það ekki. Þar sem rétturinn er bakaður er mikilvægt að pastað sé ekki fulleldað. Ef leiðbeiningar á pakka segja t.d. 14 mínútur er nóg að sjóða það í 10-11 mínútur.

Blandið næst saman kjötsósunni og pastanu og setjið í stórt eldfast mót. Hellið sósunni yfir og sáldrið loks afganginum af ostinum yfir allt saman.

Setjið í 175 gráðu heitan ofn og bakið í eina klukkustund.

Það fer lítið fyrir grískum rauðvínum í vínbúðunum en gott Miðjarðarhafsvín passar vel við, t.d. suður-ítalskt vín á borð við Promessa Syrah-Merlot eða hið spænska Mo Monastrell.

 

 

Deila.