Af einhverjum ástæðum hefur ekki þróast mikil hefð fyrir hamborgarabrauðum á Íslandi þrátt fyrir að Íslendingar kunni vel að meta góða hamborgara. Einungis ein tegund af hamborgarabrauðum virðist fáanleg á landinu og ekkert bakarí hefur, að minnsta kosti svo við vitum, lagt metnað sinn í að bjóðja upp á sérbökuð hamborgarabrauð.
Það er því bara eitt að gera – baka sín eigin hamborgarabrauð. Þetta er afskaplega einföld en jafnframt fantagóð uppskrift og það tekur einungis rúman klukkutíma að gera hana, frá því að byrjað er og þar til að brauðin koma úr ofninum. Kosturinn er líka að þegar maður bakar sín eigin brauð getur maður miðað t.d. stærð brauðanna við stærð hamborgaranna sem til stendur að gera. Þá er gott að nota spelt að hluta til að gera brauðin aðeins grófari og bragðmeiri.
- 10 dl hveiti eða 7,5 dl hveiti og 2,5 dl spelt (auk hveitis til viðbótar þegar deigið er hnoðað)
- 4 dl volg mjólk
- 1 dl volgt vatn
- 1 bréf þurrger
- 2 msk akasíusíróp eða 1 msk sykur
- 1/2 tsk salt
- 3 msk ólívuolía
Hitið mjólkina og vatnið varlega. Það má gera í örbylgjuofni. Vatnið á að vera rétt volgt, ekki heitt, þegar putta er dýft ofaní. Hrærið geri, sírópi, olíu og salti saman við. Látið standa í 5 mínútur. Blandið þá saman við hveitið og hrærið vel saman. Setjið deigið, sem á að vera svolítið blautt í sér, á þurran flöt ásamt smávegis af hveiti eftir þörfum. Hnoðið í 2-3 mínútur. Mótið í rúllu og skerið niður í 6-8 bita og mótið í bollur. Setjið á ofnplötu, þrýstið aðeins á hverja bollu fyrir sig og leyfið bollunum síðan að hefast í a.m.k. 30 mínútur.
Ef vill má pensla brauðin með pískuðu eggi til að gefa þeim flottan lit og strá smá sesamfræjum yfir áður en þau eru bökuð.
Bakið í allt að 15 mínútur við 200 gráður.