Klassísk steikarsamloka

Það eru oft til afgangar af góðu kjöti eftir góða grillveislu sem leiðinlegt er að henda. Þá er tilvalið nýta kjötið í góða, klassíska steikarsamloku.

 • nautakjöt, t.d. ribeye, entrecote eða nautalund
 • brauð, t.d. baguette eða ciabatta
 • tómatar
 • salat, t.d. klettasalat
 • stór rauðlaukur
 • 3-4 stórir sveppir
 • olía
 • balsamikedik
 • timjan
 • salt og pipar

Skerið rauðlaukinn í sneiðar. Saxið sveppina. Hitið olíu í þykkum potti eða á pönnu og mýkið laukinn. Bætið um teskeið af timjan saman við. Eftir um fimm mínútur er sveppunum bætt við. Veltið lauknum og sveppunum reglulega á pönnunni. Hitinn má ekki vera það mikill að þeir brenni. Eftir um fimm mínútur til viðbótar ætti laukurinn að vera orðinn mjög mjúkur og brúnn. Saltið og piprið, hellið skvettu af balsamikediki út á og látið malla í um mínútu enn. Takið af hitanum.

Skerið niður kjötið í þunnar sneiðar. Ef þið eigið ekki afganga er auðivtað alltaf hægt að elda steik og sneiða hiður. Saltið og piprið kjötið ef þarf.

Skerið niður tómata og salat.

Útbúið sinnepssósu.

Sinnepssósa

 • 3 msk majonnes
 • 1 msk sýrður rjómi
 • 1 msk Dijon-sinnep
 • 1/2 tsk hvítlaukskrydd
 • salt og pipar

Pískið öllu saman og geymið í kæli.

Þá er komið að því að setja samlokuna saman. Skerið brauðið í tvennt. Best er að hafa það volgt. Smyrjið sinnepssósu á báðar sneiðarnar. Þá er komið að því að byggja upp samlokuna. Fyrst kemur laukurinn, þá er kjötsneiðunum raðað á brauðið, næst tómatar og salat. Lokið samlokunni.

Skráðu þig á póstlistann okkar með því að smella hér og fáðu reglulegt fréttabréf með nýjustu vínunum, uppskriftunum og veitingahúsunum.

 

Deila.