Spaghetti að hætti I Corti

Veitingahúsið I Corti í Napólí á suðurhluta Ítalíu var stofnað af tveimur dvergvöxnum bræðrum en „I Corti“ mætti þýða sem „þeir stuttu“. Þetta er einn af vinsælustu réttum þessa þekkta veitingahúss í gegnum tíðina. Ekki láta fjölda hráefna fæla ykkur frá, þetta er afskaplega einfaldur réttur að elda og vel þess virði.

 • 500 g spaghetti
 • 1 box kirsuberjatómatar (10-12 stykki)
 • 1 lúka fínsöxuð steinselja
 • ca 100 g ólívur, niðursneiddar
 • 2 msk valhnetur
 • 2 msk heslihnetur
 • 2 msk furuhnetur
 • 4 msk súltanínur (eða venjulegar rúsínur)
 • 1 msk capers
 • 2 tsk óreganó
 • nýrifinn parmesan
 • ólífuolía
 • salt og pipar

Byrjið á því að grófsaxa hneturnar. Hitið olíu á pönnu og steikið hneturnar í smátíma, þær eiga að taka á sig lit en alls ekki að byrja að brenna.

Skerið tómatana í bita. Bætið út á pönnuna ásamt súltanínum og capers. Látið malla á pönnunni í um fimm mínútur en þá er ólífum, óreganó og steinselju bætt út á. Hrærið vel saman og látið malla í um mínútu í viðbót. Takið af hita og geymið.

Sjóðið spaghetti. Hellið vatninu frá og bætið pastanu út á pönnuna. Blandið vel saman og hitið upp í um eina mínutu. Bragðið til með salti og pipar ef þarf. Berið fram með nýrifnum parmesan.

Deila.