Centine 2010

Fyrir rúmum þrjátíu árum festi Mariana-fjölskyldan, bandarísk fjölskylda af ítölskum ættum, kaup á kastalanum Poggio alle Mure og tilheyrandi landi í Montalcino í Toskana. Fjölskyldan hafði byggt upp mikið vínveldi í Bandaríkjunum í gegnum víninnflutning en tók þar með ákvörðun um að gerast einnig stórtæk í vínframleiðslu. Hún réði færustu sérfræðinga heims til að rækta upp vínekrur og finna réttu afbrigðin af þrúgunum og á nú í dag eitt virtasta vínhús Brunello-svæðisins, Castello Bafni.

Centine er eitt af vínunum frá Banfi, það er ekki flokkað sem Montalcino heldur Toskana. Vínið er blanda úr Sangiovese (60%) og frönsku þrúgunum Cabernet Sauvignon og Merlot og hefur stundum verið lýst þannig að það sé lágvöruverðs-súpervín. Centine 2010 er dökkt, byrjar á kryddi og súkkulaði áður en dökkur plómu- og kirsuberjaávöxturinn kemst í gegn, kröftugt, tannískt og langt, frönsku þrúgurnar gefa því smá „alþjóðlegan“ blæ í bland við ítalska stílinn.

Reynið með góðum ítölskum kjötbollum.

2.198 krónur. Frábær kaup.

Deila.