Brolio Chianti Classico 2010

Ricasoli-fjölskyldan hefur stundað vínrækt við Brolio-kastala í bænum Gaiole in Chianti allt frá árinu 1141  og er því líklega elsta vínhús í heimi sem hefur verið í samfelldum rekstri sömu fjölskyldu. „Líklega“, því að Chateau de Goulaine í Loire í Frakklandi er eldra en hefur ekki stundað vínrækt jafnóslitið. Ricasoli-ættin kemur víða við í sögu toskanskrar víngerðar og það var einn af fulltrúum hinnar sem að á heiðurinn af hinni upprunalegu „Chianti-blöndu“, það er þrúgusamsetningu Chianti-vínanna.

Árangurinn 2010 var sérstakur í Toskana, veturinn var kaldur og mikið rigndi um vorið. Eftir því sem leið á sumarið bötnuðu aðstæður og þeir sem biðu nógu lengi með uppskeruna geta státað af góðum og upp í frábærum vínum.

Brolio 2010 er dæmi um Chianti Classico sem hefur heppnast einstaklega vel, þéttur dökkrauður litur, í nefi fyrst og fremst kirsuber og eik, með vanillu, tóbak og kaffi. Vínið breiðir mjög vel úr sér í munni, þétt tannín, ávöxtur og tannín hafa mikinn þroska, fínlegt  og langt. Þetta er með bestu bestu, ef ekki hið besta Brolio-vín sem ég hef smakkað, vínið hefur mikla fágun og karakter.

3.349 krónur. Mjög góð kaup.

 

Deila.