Brauðið frá Sullivan Street

Hver vill ekki geta bakað alvöru brauð, fullt af loftbólum og með stökkri skorpu rétt eins og það kæmi beint úr bakaríi á Ítalíu eða í Frakklandi. Og hvað ef það þyrfti ekki einu sinni að hnoða deigið?

Það var árið 2006 sem að einn af blaðamönnum New York Times fór að leita að slíkri uppskrift og fann hana hjá Sullivan Street Bakery á níunda stræti í Manhattan. Uppskriftin hefur síðan farið eins og eldur um sinu um allan heim.

  • 7dl (3 bollar/430 grömm) hveiti/spelt
  • 3,5 dl vatn (volgt)
  • 1/4 tsk þurrger
  • 1 tsk salt

Blandið hveiti, geri og salti vel saman í stórri skál. Hrærið vatnið saman við í hálfa til eina mínútu. Lokið skálinni með plastfilmu og leyfið deiginu að hefa sig í 12 klukkustundir við stofuhita.

Setjið hveiti á flötinn þar sem þið ætlið að vinna með deigið og hellið því úr skálinni á hveitið. Brjótið deigið varlega saman einu sinni eða tvisvar, leyfið því að hvíla sig í um 15 mínútur og mótið það síðan varlega þannig að það myndi eins konar kúlu.

Setjið hveiti á viskustykki og deigkúluna varlega ofan á viskustykkið. Sáldrið hveiti/rúgmjöli yfir kúluna. Lokið viskustykkinu með því að brjóta það saman ef það er nógu stórt eða setja annað viskustykki yfir.

Leyfið deginu að hefa sig aftur í um tvær klukkustundir.

Þá er komið að því að baka brauðið. Það gerum við í potti með loki sem má fara inn í ofn. Við notuðum Le Creuset pottjárnspott og það var eins og hann hefði verið smíðaður til svona brúks. Það er líka hægt að baka brauðið í Pyrex-glerskál með loki.

Setjið pottinn með loki inn í ofninn og hitið ofninn í 240 gráður. Þegar ofninn/potturinn eru orðin heit (hitið pottinn í a.m.k. 30 mínútur) er potturinn tekinn út og deigið sett ofan í hann. Lokið á aftur og potturinn inn í ofn.

Bakið í 30 mínútur með lokinu. Takið það þá af og bakið áfram án loks í 20-30 mínútur til viðbótar.

Við notuð gróft italskt Farro-hveiti og það heppnaðist mjög vel.

 

Deila.