Chateau Pibran 2007

Pibran er vínhús í Pauillac í Bordeaux næsti nágranni risa á borð við Pichon, Mouton og Latour. Það er í eigu sömu aðila og Pichon-Baron og það er sama víngerðarteymið sem býr til vínið. Pibran var hins vegar ekki flokkað sem Grand Cru Classé árið 1855 líkt og nágrannarnir heldur er þetta Cru Bourgeois sem skilar sé í mun „neytendavænna“ verði heldur en stóru nöfnin.

Pibran 2007 er dimmt, skógarber í bland við sólberjaávöxtinn, það er töluvert af Merlot í blöndunni sem að gerir vínið opnara, mýkra, og breiðara en ef Cabernet væri alveg ríkjandi. Sedrusviður, blýantsydd, míneralískt, eikin þétt, stíllinn klassískur og fágaður.Langt og farið að mýkjast.  Hörkuvín, Mæli með umhellingu.  Með villibráðinni, rjúpu, hreindýri, villigæs. Væri líka afbragð með t.d. appelsínuönd.

5.999 krónur. Mjög góð kaup.

Deila.