Öðruvísi Yellow Tail…

Casella-fjölskyldan flutti frá Sikiley til Ástralíu um miðbik síðustu aldar og hélt þar áfram sömu iðju og hún hafði stundað í heimalandinu, þ.e. vínrækt. Á síðustu áratugum hefur fjölskyldan byggt upp eitthvert helsta vínfyrirtæki Ástralíu fyrir tilstuðlan vína sem seld eru undir nafninu Yellow Tail. Það var í nýlegri samantekt talið verið sterkasta vínvörumerki (brand) Ástralíu og þriðja öflugasta vínvörumerki í heimi. Enda er líklega varla til sá stórmarkaður í hinum vestræna heimi þar sem áströlsk vín eru seld þar sem ekki er hægt að rekast á Yellow Tail.

Auðvitað má rekja þennan árangur til vel heppnaðrar markaðssetningar í bland við vín sem nær að höfða til mjög breiðs hóps og er á góðu verði. Í seinni tíð hefur Casella-fjölskyldan (sem enn á fyrirtækið) verið að feta sig áfram í framleiðslu á vínum í hæstu gæðaflokkum, vín sem hafa verið að skáka stóru áströlsku nöfnunum í smökkunum og við fengum á dögunum til smökkunar flösku af Limited Release 2006, sem er eitt af bestu vínunum sem Casella framleiðir. Vínið er ekki selt á Íslandi – en það er forvitnilegt að smakka það. Þetta er alvöru Shiraz, þéttur með sultuðum plómuávexti, mokka, kókos og kaffi í nefi, mjög piprað. Uppbyggingin nokkuð elegant, vel strúktúrerað. Vín sem væri að skora 4,5-5 hjá okkur allt eftir því á hvaða verði það kæmi inn.

Deila.