Tómata er hægt að nota á óteljandi vegu. Hér bökum við þá í tvo klukkutíma þar til þeir verða sætir og fínir og notum svo í yndislega, bragðmikla súpu sem er fullkominn nú yfir veturinn. Athugið að það tekur um þrjá tíma að elda þessa súpu.
- 1 kg. tómatar, t.d. þroskaðir plómu- eða kirsuberjatómatar
- 1 dós niðursoðnir tómatar
- 1 laukur, saxaður
- 4-5 væn hvítlauksrif, pressuð
- 1 msk kjúklingakraftur, blandaður í 1/2 dl af vatni
- 1 væn lúka ferskt basil, saxað
- 2 lárviðarlauf
- 1 dl rjómi/matreiðslurjómi
- nokkrir dropar af tabasco
- óíífuolía
- balsamikedik
- sykur
- salt og pipar
Við byrjum á því að baka tómatana. Skerið þá í báta (í tvennt ef þið notið kirsuberjatómata eða konfekttómata) setjið bökunarpappír á plötu og raðið tómatabitunum á plötuna. Helliðl smá ólífuolíu og balsamikediki yfir. Saltið með Maldon-salti og kryddið með nýmuldum pipar. Það má líka sáldra tsk af sykri yfir. Bakið við 150 gráður í tvær klukkustundir.
:Þá er komið að sjálfri súpunni. Hitið oliíu í þykkum potti og svissið lauk og hvítlauk í nokkrar mínútur. Bætið næst ofnbökuðu tómötunum út á og niðursoðnu tómötunum. Hrærið vel saman. Bætið lárviðarlaufum, basil, kjúklingakrafti og tabasco út á. Látið malla á mjög vægum hita í 45-60 mínútur.
Maukið létt með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Alls ekki of mikið, það er best að hafa hana þykka og fína. Bragðið til með salti og pipar, setjið rjómann út í og eldið áfram í nokkrar mínútur. Það má líka sleppa rjómanum.
Berið fram með nýbökuðu brauði, góðri bagettu eða þessu yndislega brauði hér.
Fleiri súpuuppskriftir er svo hægt að nálgast hér.