Francois d’Allaines Saint Aubin Premier Cru „Sur Gamay“ 2007

Saint Aubin er þorp sunnarlega á svæðinu Cote-de-Beaune í Búrgund og þar skammt frá er einnig að finna þorpið Gamay sem samnefnd þrúga er nefnd eftir. Þetta er einna ekru vín af „Premier Cru“ ekru sem heitir Sur Gamay.

Vínið er farið að dökkna, komið með góðan og glæsilegan þroska, þétt angan af hunangi, smjöri, sætum sítrónuávexti og ristuðum hnetum. Þykkt og feitt, mikið í munni með góðri sýru sem heldur uppi ferskleikanum. Ansi snotur Búrgundari frá d’Allaines. Með humri eða fisk í góðri sósu, þess vegna bragðmikilli smjör eða rjómasósu, hvers vegna ekki þorski í vanillusósu.

4.795 krónur.

Deila.