Risotto er hægt að gera á margvíslega vegu. Hér höldum við áfram að leika okkur með „ítalskar pylsur“ en í stað þess að gera pylsur mótum við kjötblönduna í litlar kjötbollur.
Risotto
- 4 dl Arborio-hrísgrjón
- 3 skalottulaukar, fínsaxaðir
- 1 lítri soð úr góðum kjötkrafti
- 1 búnt steinselja, fínsöxuð
- 50 g parmesan, rifinn
- 2 msk smjör
- salt og pipar
Ítalskar „salsiccie“ kjötbollur
- 500 g grísahakk
- 2-3 hvítlauksgeirar
- 1 msk óreganó
- 1 msk fennel
- 1 tsk paprika
- 1/2-1 tsk chiliflögur
- 1/2 tsk laukkrydd (má sleppa)
- Maldonsalt
- nýmulinn pipar
Blandið öllu vel saman og mótið mjög litlar bollur.
Hitið smjörið á pönnu og mýkið laukin. Bætið næst grjónunum út á. Þegar að þau eru orðin vel heit er rauðvíninu hellt út á og soðið að mestu niður. Nú má byrja að ausa soðinu út á þannig að það þekji grjónin. Bætið við soði eins og þarf þar til að grjónin eru fullelduð. Það á að taka um 18-20 mínútur.
Á meðan eru kjötbollurnar steiktar á annarri pönnu.
Þegar að grjónin eru tilbúin er bollunum, ostinum og steinseljunni blandað saman við grjónin. Bragðið til með salti og pipar.
Að sjálfsögðu ítalskt rauðvín með á borð við Torre del Falco Nero di Troia.