Perticaia Montefalco Rosso 2009

Úmbría er næsta hérað suður af Toskana á ítalíu og svipar um margt til þess. Vínin þaðan eru þó ekki nærri því eins þekkt og þau toskönsku. Engu að síður leynast þar margar gersamar. Perticaia er fjölskylduvínhús á Montefalco-svæðinu, stofnað fyrir rúmum áratug, sem alla jafna er nú flokkað með betri vínhúsum Úmbríu. Í Rosso-víninu frá Perticaia, sem er óeikað,  er Sangiovese uppistaðan (meginþrúga Toskana) eða um 70% en afgangurinn af blöndunni eru Úmbríuþrúgurnar Sagrantino og Colorino. Þetta er kröftugt vín,  ferskt og sýrumikið með stífum tannínum, þarf tíma til að opna sig og má gjarnan umhella. Kröftug dökk berjaangan, sólber, krækiber, reykur. Þétt og tannískt, þurrt, míneralískt. Matarvin. Reynið með pastasósum með tómötum.

3.150 krónur. Góð kaup.

Deila.