„Rjóma“ spínat

Spínat er meinhollt og bragðmikið og vestanhafs er til sígildur réttur sem er kallaður „creamed spinach“ sem nýtur mikilla vinsælda sem meðlæti á betri steikhúsum og á veisluborðum ekki síst með kalkúninum á Þakkarbjörðardeginum.

Okkur hefur ekki tekist að finna viðunandi þýðingu á þessu heiti enda er enginn rjómi í þessari uppskrift að „creamed“ spínati heldur látum við mjólkina duga þótt í gömlu klassísku uppskriftunum sé rjóma líka bætt við. Í seinni tíð hefur rjóminn hins vegar verið að víkja – enda í raun ekki mikil þörf á honum í þessari uppskrift.

Fyrst byrjar maður á því að útbúa sósuna.

  • 2 msk hveiti
  • 50 g smjör
  • 5 dl mjólk
  • 1 laukur, fínsaxaður
  • 3 hvítlauksgeirar, fínsaxaðir
  • 2 negulnaglar
  • múskathneta
  • salt og pipar

Hitið pönnu og setjið hveitið út á. Hitið það í 1-2 mínútur og bætið svo smjörinu út á ásamt negulnöglunum. Hrærið um í blöndunni og látið hana malla áfram á rúmlega miðlungshita í nokkrar mínútur eða þar til að hún byrjar að skipta um lit. Bætið þá lauknum og hvítlauknum út á og steikið í nokkrar mínútur.

Þá er komið að því að hella mjólkinni út. Gerið það í nokkrum skömmtum og blandið vel saman við hveitiblönduna.og pískið úr hugsanlega kekki. Smám saman fer sósan að þykkna, þegar að hún er orðin vel þykk er pannan tekin af hitanum. Bragðið til með rifinni múskathnetu, salti og pipar. Fjarlægið negulnaglana.

Spínatið þarf að hita á annarri pönnu eða í stórum þykkum potti. Það þarf 2 poka af spínati fyrir 4-6. Hitið 2-3 msk. af vatni í pönnunni. Þegar að það byrjar að sjóða er allt spínatið sett út á pönnuna. Þetta er ansi væn hrúga en hún minnkar afskaplega hratt. Þegar allt spínatið er orðið mjúkt er það tekið af pönnunni, sett á skurðbretti og grófsaxað. Setjið aftur á pönnuna og bætið sósunni saman við. Ekki setja hana alla í einu. Finnið það „creamy“ hlutfall sem að þið viljið hafa.

Fleiri hugmyndir að meðlæti má svo finna hér.

Deila.