Sætar Hasselback kartöflur

Hasselback kartöflur eru sænskar að uppruna og fyrir þá sem vilja gera klassískar Hasselback er uppskrift að slíkum að finna hér. Að þessu sinni ákváðum við hins vegar að nota sætar kartöflur og elda þær með „Hasselback-aðferðinni“ en í henni felst að kartöflurnar eru skornar í kubba, raufar skornar í þær og þær síðan smurðar með smjöri. En það sem þarf í sætu Hasselback kartöflurnar er eftirfarandi:

  • sætar kartöflur
  • hvítlaukur, pressaður
  • rósmarín
  • chiliflögur
  • smjör
  • salt og pipar

Það er hægt að gera sætar Hasselback kartöflur á tvo vegu, rétt eins og venjulegar Hasselback. Annars vegar með því að nota heilar kartöflur og skera niður í þær. Hins vegar er hægt að skera kartöflurnar í kubba og skera síðan þéttar rákir nær alveg í gegnum kartöflurnar. Sætar kartöflur eru mun stærri og harðari en venjulegar og það er því þægilegra að búa til kubba, bæði upp á að skera þær og einnig upp á eldunartímann.

Við erum ekki að gefa upp nákvæmt magn í þessari uppskrift enda ræðst það svolítið af smekk og hvað þið eruð að gera mikið magn. Miðað við eina stóra sæta kartöflu má þó gera ráð fyrir um 2 msk smjöri, 2 vænir hvítlauksgeirar, 1 msk rósmarín og 1/4 msk chiliflögur.

Bræðið smjörið og blandið saman við það pressuðum hvítlauk, söxuðu fersku rósmarín, chiliflögum, salti og pipar. Setjið kartöflukubbana á bökunarpappír á ofnplötu. Setjið smá af hvítlaukssmjörinu ofan á hvern kubb og dreifið vel yfir þannig að það renni niður í raufarnar.

Eldið í um 40-45 mínútur við 200 gráður. Tíminn ræðst auðvitað af stærð kubbanna. Þegar kubbarnir eru orðnir mjúkir í gegn eru þeir tilbúnir.

Deila.