Peter Lehmann „masterclass“ og matseðill á Holti

Andrew Wigan yfirvíngerðamaður ástralska vínhússins Peter Lehmann heldur masterclass-smökkun á Hótel Holti 8. maí næstkomandi. Í tilefni af komu hans verður einnig í boði sérstakur Peter Lehmann matseðill á Holtinu dagana 9.-12 maí þar sem Friðgeir Ingi Eiríksson yfirmatreiðslumaður Holtsins hefur sett saman rétti er passa við vínin frá Lehmann.
Wigan er einn virtasti víngerðarmaður Ástralíu en hann hefur starfað með Peter Lehmann allt frá því að Lehmann stofnaði vínhús sitt árið 1979 í Barossa. Áður höfðu þeir starfað saman um árabil hjá Saltram áður en Lehmann tók þá djörfu ákvörðun að gerast sjálfstæður framleiðandi.
Wigan hefur í tvígang eða árin 2003 og 2006 verið valin „víngerðarmaður ársins“ af International Wine Challenge, sem eru einhver virtustu samtök vínheimsins. Þá hefur hann verið heiðraður með margvíslegum hætti í Ástralíu fyrir vín sín, m.a. hefur hann hlotið hinn eftirsóttu Jimmy Watson verðlaun fyrir nokkur vín. Það hefur því mikið vatn runnið til sjávar frá því að hann gerði fyrsta vínið sitt sem ungur maður árið 1972 með því að láta þrúgusafa gerjast í ruslafötu undir rúminu sínu.
Það er spennandi mat- og vínseðill sem verður í boði á Listasafninu á Holti vegna komu Wigans. Með víninu Eden Valley Riesling verður boðið upp á eldsteiktan humar og hörpuskel ásamt humar- og kókossósu með sojabaunum, engifer og papaya, með hvítvíninu Layers er borin fram sítrónumarineraður lax, tataki með sjávargrasi, niðurlagt grænmeti og greipaldin vinaigrette. Aðalrétturinn er kengúrusteik, rauðbeðu „dumplings“ og snöggsteikt pak choi kál en það er rauðvínið Futures Shiraz sem fylgir þeim rétti. Loks kemur sætt eftirréttarvín, Late Harvest Sémillon, með heitri, hvítri súkkulaðiköku ásamt mangó, grænni sósu og ískrapi úr sætri kartöflu.
Verð fyrir matseðilinn ásamt fjórum glösum af víni er 16.900 krónur en 8900 krónur án vína. Hann verður í boði dagana 8.-12. maí

Deila.