Steingrímur bloggar: Alvöru gallerý á Fenavin

Það er ekki oft sem að maður fyllist valkvíða í vínsmökkunum. Ef eitthvað gæti valdið slíku er það líklega vín „galleríið“ á spænsku vínsýningunni Fenavin.  Þar er í einum sal hægt að smakka, ekki bara tugi, ekki bara hundruð heldur á annað þúsund spænskra vína. Þú gengur inn í salinn, færð þitt smökkunarglas og gengur svo á línuna. Eða þannig. Það liggur auðvitað í augum uppi að maður kemst engann veginn yfir allt og jafnvel reyndustu smakkarar myndu líklega játa sig sigraða áður en þeir kæmust á leiðarenda. Því verður að velja og hafna – sem er erfitt því að þarna er að finna þverskurð af öllu því besta sem spænsk víngerð hefur að bjóða upp á, freyðivín, hvítvín, rauðvín og rósavín frá öllum svæðum Spánar og frá mörgum af helstu framleiðendum hvers svæðis. Mörg vínanna auðvitað einföld og auðgleymanleg en inni á milli líka algjörir gullmolar.

Þetta er í þriðja skipti sem að ég heimsæki Fenavin og víngalleríið er eitt af því sem heillar hvað mest við sýninguna. Því að þrátt fyrir að maður nái einungis að smakka brot af vínunum þar þá gefur galleríið einstaka yfirsýn yfir það sem er að gerast í spænskri víngerð og þetta framtak er skipuleggjendum Fenavin til mikils sóma.

En líkt og sagði í upphafi þá verður maður að velja og hafna og ég ákvað að einbeita mér að hvítvínunum fyrsta daginn. Og enn og aftur sannfærðist ég um yfirburði Albarniho-þrúgunnar sem fyrst og fremst er ræktuð í Rias Baixas í Galisíu, rétt fyrir norðan landamæri Spánar og Portúgal. Einstök þrúga sem getur tekið á sig margvíslegar myndir, ávaxtarík, míneralísk, örlítið sæt, skrjáfþurr en yfirleitt arómatísk og fersk. Víngerðarhúsin í Galisíu standa líka mjög framarlega í tækni og vínin yfirleitt óaðfinnanleg tæknilega þótt stíllinn sé ólíkur. Nokkur stóðu upp úr – til dæmis vínin frá ´vinhúsinu Paco & Lola sem vöktu athygli mína fyrst á Fenavin fyrir tveimur árum. Svakalega heillandi og flott vín (og fróðlegt að rekast nú einnig á rauðvín frá P&L – prýðisgott og gert í Navarra).  Önnur komu líka mjög vel út s.s. Pionero Maccerato, Senorio de Rublos, Lagar de Costa og Granbazan svo einhver séu nefnd.

En spænsku hvítvínin byggjast ekki bara á Albarinho – þrúgurnar Godello og Viura geta verið magnaðar hvort sem vínin koma frá Ribeira, Valdeorras eða Rueda. Og svo er það Verdejo, þessi magnaða ferska þrúga sem minnir svo oft á Sauvignon Blanc. Inn á milli gafst síðan líka tækfæri til að kíkja á óvenjulegar þrúgur á borð við baskaþrúguna Hondarribi Zuri…

En Fenavin snýst auðvitað ekki einungis um víngalleríið þótt það skipi þarna mikilvægan sess. Fyrst og fremst er þetta hefðbundin vínsýning þar sem að hundruð vínhúsa af öllum stærðum og gerðum hafa sett upp bása sína á sýningarsvæðinu. Allt frá litlum og krúttlegum húsum sem jafnvel taka sig nokkur saman um bás til stóru vínhúsanna sem að leggja undir sig tugi fermetra. Hjá sumum er alltaf örtröð – rólegra hjá öðrum og mæna þeir vonaraugum á alla sem ganga fram hjá.

Sýningin skiptir Spánverja meira máli en oft áður. Efnhagsástandið í landinu er auðvitað hrikalegt og það bitnar á vínframleiðendum ekki síður en öðrum. Spánverjar spara við sig, þeir fara mun sjaldnar út að borða en áður og þegar að þeir gera það eða kaup vín til að hafa við heimilisborðið þá er yfirleitt um ódýrari flöskur að ræða en fyrir nokkrum árum. Vínhúsin sem flest hver treysta að mestu leyti á heimamarkaðinn eru því mörg hver í vondum málum og oftar en ekki dettur mönnum í hug að bæta upp tekjutapið með því að leggja áherslu á útflutning. Það er hins vegar hægara sagt en gert. Samkeppnin er hörð og það er ekki bara á Spáni sem að efnahagsmálin eru í lægð.

Nokkrir þeirra sem rætt var við voru þó þokkalega bjartsýnir og vínhúsin sem ávallt hafa verið sterk í útflutningi finna ekki eins fyrir kreppunni og þau sem fyrst og fremst hafa verið á heimamarkaðnum.

En hvað stóð upp úr fyrsta daginn? Bodegas Canopy er lítið og framsækið vínhús á svæðinu Méntrida á hásléttunni, skammt frá borginni Toledo sem að bræðurnir Alberto og Belarmino Fernandez gera ásamt víngerðarmanninum Alfonso Chacon. Vínið þeirra Malpaso var vín ársins hjá Vínótekinu fyrir tveimur árum og ég kíkti við hjá þeim til að sjá hvað væri að gerast nýtt hjá þeim. Eins og alltaf þá sitja þeir ekki auðum höndum. Nýlega gerði Canopy fyrsta hvítvínið sitt, það var gert úr þrúgum úr mjög gömlum vínvið af Grenache Blanc, magnað, feitt og míneralískt vín, sem að maður getur talist heppinn að fá að smakka. Einungis þúsund flöskur voru framleiddar og þær hurfu eins og hendi væri veifað. Þetta er svolítið klikkað vín – eins og raunar þeir Canopy-félagarnir – og í stað að hafa hefðbundin flöskumiða á flöskunni er lítil spennutreyja vafinn utan um hana. Klikkað.

Þarna á básnum hjá þeim smakkaði ég nýjustu árgangana af Malpaso og Tres Patas (2008) og ef eitthvað er þá eru vínin enn að batna á milli ára. Þeir félagarnir voru enda mjög ánægðir með að Wine Advocate Roberts Parkers gaf þessum vínum 93 punkta á dögunum.

Sömuleiðis tvö mjög ólík vín þar sem Garnacha er ríkjandi, Congo og La Vina Escondita. Hið síðarnefnda þungt, jarðbundið, reykhlaðið, lokað. Hitt opnara, með þykkum, heitum og dökkum ávexti. Kaos síðan lítill gullmoli sem eingöngu voru gerðar þrjár tunnur af, þrúgur af pínkulitlum skika með mjög gömlum vínvið.

Þá er að koma algjörlega nýtt vín frá þeim sem þeir félagarnir voru með flöskusýni af – Castello del Delalfonso, mun léttara vín en önnur Canopy vín, óeikað og ávaxtaríkt. Nafnið eins og annað hjá þeim er í léttum dúr – og léttgeggjað.

Seinna  í vikunni stendur svo til að heimsækja fjölskylduveitingastað Fernandez-fjölskyldunnar í Madrid…einn af mínum uppáhaldsstöðum þar.

Deila.