Guðrún Jenný bloggar: Vöfflur á sunnudagsmorgni

Ég get sjaldan sofið út um helgar og læðist þess vegna oft fram í eldhús á meðan aðrir fjölskyldumeðlimir sofa. Mér finnst frábært að fá stund fyrir sjálfa mig svona snemma morguns og nota þá oft tímann til að vafra á netinu og oftar en ekki eru það matar- og uppskriftarsíður sem ég skoða. Þegar ég get svo ekki beðið lengur byrja ég að stússast í eldhúsinu og hræri oft í vöfflur eða pönnukökur, sérstaklega á sunnudagsmorgnum. Strákunum mínum finnst alveg ofsalega gott að vakna við ilminn af bakkelsinu og þessa morgna er ég besta mamma í heimi, að þeirra mati allavega.

Ég nýti helgarmorgna í svona dekur enda höfum við öll á heimilinu meiri tíma þá en á virkum morgnum. Þó er það föst venja að ef einhver fjölskyldumeðlimur á afmæli þá baka ég líka og skiptir þá ekki máli hvort það sé helgi eða ekki. Ef ég er í tímaþröng þá undirbý ég allt kvöldinu áður, þ.e. blanda saman þurrefnunum og bæti svo bara út í um morguninn mjólk, eggjum, vanillu og smjöri.

Uppskriftin sem ég birti hér er svo sem engin vísindi og örugglega eiga allir „sína eigin“ vöfflu uppskrift. Það sem mér finnst aftur á móti aðeins öðruvísi við þessa er að í upphaflegu uppskriftinni sem ég fann einhvers staðar á netinu mælir fyrir um buttermilk. Þetta er einhvers konar sýrð mjólk og eftir smá „gúggl“ þá komst ég að því að hægt er að búa þetta til heima með því að bæta sítrónusafa eða ediki í mjólk og láta bíða svo í 5 mín. Hlutföllin eru þá 1 msk sítrónusafi/edik á móti 1 bolla (amerískt mál) mjólk. Kannski er líka bara hægt að nota súrmjólk en ég hef ekki prófað það.

En hér er uppskriftin:

1 og 1/3 bolli hveiti
2 msk sykur (má sleppa eða jafnvel minnka um helming)
2 tsk lyftiduft
1 tsk matarsódi
1 tsk salt
1 og 3/4 bolli „buttermilk“
½ bolli smjör (brætt og kælt aðeins)
2 egg
2 tsk vanilludropar

Blandið saman þurrefnunum (hveiti, sykri, lyftidufti, matarsóda og salti). Þeytið saman í annarri skál mjólkinni, eggjum, vanillu og smjöri. Blandið nú þurrefnum saman við eggja-/mjólkurhræruna og hrærið saman. Bakið í vöfflujárni. Ef þið viljið hafa vöfflurnar stökkar þá má ekki stafla þeim upp heldur halda þeim aðskildum og helst bera þær fram strax og þær eru tilbúnar úr járninu.

Þessa vöfflur eru góðar með sultu og rjóma eða sykri. Mér finnst æði að smyrja vöffluna með smjöri, hella smá hlynsírópi yfir og skera svo ca hálfan banana ofan á – namm namm. Ekki beint megrunarmorgunmatur en rosalega góður endrum og eins – það má er það ekki annars?

Deila.