Mexicali-kjúklingur „butterfly“

Mexicali er nafnið á höfuðborg Baja California sem er sá hluti Kaliforníuskagans sem tilheyrir Mexíkó. Mexicali er hins vegar líka hugtak sem notað er yfir þann sambræðing af matarvenjum Mexíkó og Kaliforníu sem finna má í suðurhluta ríkisins, svona svipað og Tex-Mex í Texas. Grillaðir „butterfly“-kjúklingar sem marineraðir hafa verið í góðri kryddblöndu njóta mikilla vinsælda í Suður-Kaliforníu og margir litlir staðir sem sérhæfa sig í að bera fram slíkan kjúkling. Hér er ein ekta, fín Mexicali-uppskrift.

  • 1 lime, safi pressaður og börkur rifinn
  • 2/3  dl ólífuolía
  • 4-5 hvítlauksgeirar
  • 2 msk paprika
  • 1 msk reykt paprika
  • 1 msk Chilipipar (má sleppa)
  • 1 msk óreganó
  • 1 tsk kóríander
  • 1 tsk cummin
  • 1/4 tsk kanill
  • salt og pipar

Setjið allt í matvinnsluvél og maukið vel saman. Skerið kjúklinginn í butterfly. Leiðbeiningar um hvernig maður gerir það má finna hér. Smyrjið kryddblöndunni á kjúklinginn og passið að troða líka undir húðina á honum. Setjið álpappír eða plast yfir skálina og geymið kjúklinginn í ísskáp í nokkrar klukkustundir.

Hitið grillið. Setjið kjúklinginn á grillið og látið skinnhliðina snúa niður. Grillið í 4-5 mínútur undir loki. Snúið þá kjúklingnum við. Lækkið hitann verulega undir kjúklingnum sjálfum (best er að hafa hann yfir miðjubrennaranum) og grillið áfram í um 30-40 mínútur eða þar til að hann er fulleldaður.

Leyfið honum að jafna sig á skurðbretti í 4-5 mínútur og berið síðan fram. Meðlæti með gæti t.d. verið gott maíssalat og ekta mexíkósk salsa. Annar kostur væri gott kartöflusalat.

Fleiri uppskriftir að grilluðum kjúkling má svo finna hér.

Deila.