Montes Alpha Chardonnay 2011

Montes Alpha Chardonnay er toppvínið í hvítu frá Montes-vínhúsinu í Chile en eins og margir muna var stofnandi þess Aurelio Montes staddur hér á landi síðasta haust og má sjá viðtal sem tekið var við hann þá hér.

Alpha Chardonnay er með fallegan, ljósan gulan lit, vínið er nokkuð eikað og það leynir sér hvorki í lit né nefi vínsins. Þétt, sæt sítrusangan, samofin vanillu og hitabeltisávöxtum, þroskaður bananir, mangó, í nefi feitt, mjúkt, með smjöri og vanillu. Þetta er ekta Nýjaheimsvín, með safaríkum, ágengum ávexti og ristaðri eik. Reynið með grilluðum kjúkling eða humar.

2.999 krónur. Mjög góð kaup.

Deila.