Guðrún Jenný bloggar: Fyrsta grill sumarsins

Við grilluðum í gær í fyrsta skipti á þessu sumri – dagatalið segir sumar þó svo að sumir vilji meina að veðrið líkist frekar hausti.

Svínahnakki varð fyrir valinu í þetta skiptið.  Mér finnst ofsalega gott að fá svolítið austurlenskt bragð á svínakjöt.  Ég ákvað því að prófa að marinera hnakkann tvisvar og nota í það austurlensk krydd og bragðefni.

Ég byrjaði á því að blanda saman 2 msk af balsamic ediki og 2 msk af kínverskri fimm krydda blöndu (fæst í austurlensku búðunum), út í þetta kramdi ég svo þrjú hvítlauksrif.  Þessu mauki smurði ég á hnakkasneiðarnar og lét liggja á þeim í ca 2 tíma.  Þá var komið að „blautari“ marineringu – 1 dl af sírópi var hrært útí 1 dl af sojasósu.  Út í þetta fór svo rúmlega 1 tsk af Sambal Olek sem er nokkurs konar chili mauk (fæst líka í austurlensku búðunum), svo setti ég líka svolítinn slurk af eplasafa.  Þessu hellti ég yfir sneiðarnar og lét aftur marinerast í tvo tíma.  Sneiðarnar voru svo grillaðar á fína litla gasgrillinu í smá kuldatrekki þar til þær voru tilbúnar.

Með þessu hafði ég tvenns konar kartöflur.  Annars vegar venjulegar kartöflur sem ég hafði skorið í tvennt og bakað í ofninum með olíu, salti og pipar og hins vegar bakaðar sætar kartöflur.

Sambal Olek hrært út í gríska jógúrt passaði mjög vel við sem köld grillsósa.  Þá fannst inni í ísskáp leifar af quacamole sem passaði nú líka bara ágætlega með herlegheitunum við þó svo að það tilheyri nú seint austurlenskri matargerð

055

 

Það er leikur einn að gera quacamole og þegar þið hafið einu sinni gert það sjálf þá lítið þið ekki við þessu græna sulli sem selt er í dósavís í búðunum.  Vel þroskuð lárpera (avacado) er skorin í tvennt og steinninn fjarlægður.  Aldinkjötið er skafið frá hýðinu og sett í skál.  Mér finnst best að hafa mitt quacamole svolítið gróft og mer það þess vegna með skeið eða í mortéli þangað til að réttri áferð er náð.  Út í lárperumaukið setjiði svo hvítlauk, salt, pipar og sítrónu- eða limesafa allt eftir smekk.  Ef þið eigið rauðan chilipipar þá passar hann líka vel í.  Svo er mjög gott að taka bragðgóða kirsuberjatómata og saxa út en það sem gerir að mínu mati quacamole ómótstæðilegt er fersk basilika.  Saxið góðan skammt af basilíku út í lárperumaukið – namm namm.

Deila.