Steingrímur bloggar: Kvenskörungur í Chablis

Það er ekki bara á Íslandi sem að maímánuður var ömurlegur. Í Búrgund í Frakklandi (og raunar víðar í vínhéruðum Evrópu) var maí kaldur og vætusamur. Í Chablis er vínviðurinn núna um 20 dögum á eftir miðað við meðalárið. Það þarf þó ekki endilega að þýða að árgangurinn verði slæmur, lokaniðurstaðan ræðst af því hvernig sumarið þróast og ekki síður haustið – enda ljóst að uppskeran mun dragast fram í lok september og jafnvel október.

Fyrsta stoppið í Frakklandsferðinni var einmitt í Chablis og fyrsta vínhúsið sem var heimsótt var Domaine de Malandes sem Lyne Marchive stjórnar af mikilli röggsemi. Undir Malandes heyra rúmlega 28 hektarar af vínekrum í Chablis og framleiðir húsið um 220 þúsund flöskur á ári.

Lyne tók við stjórninni árið 2007 en eitt af sérkennum Domaine de Malandes er að nær öll framleiðslan fer í útflutning. Stíll vínanna er kröftugur og stílhreinn og víngerðarmaðurinn Guénolé Breteaudeau hefur þróað hann áfram, m.a. með aukinni notkun á eik þar sem það á við.

Við smökkuðum okkur í gegnum helstu vín hússins – bæði 2011 og 2012 (úr tunnu) og auðvitað voru það Grand Cru-vínin Vaudésir og Les Clos sem stóðu upp úr. Vaudésir fínlegt, kvenlegt og elegant en Les Clos kröftugt og konunglegt, mér fannst það síðarnefnda hafa vinninginn í þessum ungu árgöngum. Premier Cru-vínin hins vegar ekki síður tignarleg, t.d. Vau de Vey, míneralísk og karaktermikil.

Það verður hins vegar að segjast eins og er að ein helsta stjarnan var „Vieilles Vignes Chablis“-vínið Tour de Roy.

Grand Cru-ekrurnar, það er þær ekrur sem teljast vera þær bestu í Chablis, er allar að finna á hæð við hlið þorpsins Chablis. Fyrir 150 milljónum ára var þetta sjávarbotn og kalksteinnin sem þá myndaðist er grunnurinn að bestu ekrunum í Chablis. Í steinunum má víða sjá steingervinga – skeljar – sem eru til minnis um sjávarlífið sem þarna var eitt sinn. Í ökuferð með Lyne um Grand Cru-hæðina sér maður hver galdurinn á bak við Tour de Roy er. Eða galdur og ekki galdur. Ekran er hreinlega á Grand Cru-hæðinni, í dalnum þar sem Vaudésir er að finna en er samt flokkuð sem „einfaldur“ Chablis af einhverjum sögulegum ástæðum.

Lyne segir að faðir hennar hafi bent henni á að hún gæti óskað eftir því að ekran yrði endurflokkuð en að hún hafi ákveðið að leggja ekki í það – enda ljóst að allar slíkar beiðnir yrðu mjög umdeildar, enda miklir hagsmunir í húfinu meðal framleiðenda á svæðinu. Hún hafi hins vegar ákveðið að gera sjálfstætt vín úr þrúgunum af ekrunni undir nafninu Tour de Roy.

Chablis er lítið miðaldaþorp og það tekur ekki langan tíma að labba í gegnum það. Lyne býður heim til sín í kvöldverð en hún býr í gömlu og fallegu húsi alveg í miðborginni. Elsti hluti þess (kjallarinn sem nú er nýttur sem einkavínkjallari) er frá sextándu öld og þar geymir hún ýmsar gersemar bæði frá svæðinu sem öðrum vínhéruðum Frakklands og öðrum ríkjum.

Við byrjum á því að smakka aftur ungu Chablis-vínin sem fordrykk með Gougérers, sem er eins konar vatnsdeigsbollur með osti, mjög týpiskar fyrir Búrgund, og falla afskaplega vel að hvítu Chablis-vínunum. Þegar líður á máltíðina eru dregnir fram eldri árgangar og við smökkum m.a. Vaudésir 1996 úr magnum – vínið einstaklega ferskt ennþá, rjómamikið og lifandi, ennþá góður ávöxtur. Í raun ótrúlega lifandi fyrir sautján ára gamalt hvítvín. Með ostunum er farið til Bordeaux í sama árgang, Chateau Saint Pierre frá Saint Julien, árgangur og vín sem  eldist vel, en það má ekki á milli sjá hvort vínið hefur elst betur, það frá Chablis eða St. Julien.

Deila.