Davíð Logi bloggar: Líbanskt shanklish-salat og fleira

Ég leyfi mér að fullyrða að í níu af hverjum tíu tilfellum sem ég fór á líbanskan veitingastað í Líbanon þessi tæplega fjögur ár sem ég bjó í landinu hafi ég pantað bæði hummus og moutabbal (Baba Ghanoush) og síðan tvenn salöt, tabbouleh og fattoush. Þetta var grunnurinn, síðan bætti maður við fjórum fimm tegundum af öðrum mezzeh-réttum og svo mögulega grillkjöti á spjóti.

Ég hef aldrei verið fyllilega ánægður með það hummus sem framleitt er á Íslandi. Kannski af því að maður er svo góðu vanur, hummus í Líbanon er nánast eins og rjómi, bæði áferð og innihald. Um daginn áttaði ég mig á því – mér til mikillar ánægju – að Tyrkneskur bazar í Síðumúla selur líbanskt hummus, og raunar líka Baba Ghanoush (búið til úr eggaldin í stað kjúklingabauna).

hummus

Auðvitað er munur á því að borða ferskt hummus og svo niðursoðið, sem hingað hefur verið flutt alla leið frá bænum Chtoura (borið fram „stúra“) í Beka-dal, en ég nefni þetta samt hér fyrir áhugasama. Ég sauð reyndar nokkrar baunir og stappaði saman við hummusið úr dósunum og betrumbætti því vöruna aðeins og það reyndist bara vel. Setti nokkrar baunir óstappaðar til skreytingar í miðjuna, hellti ólívuolíu í miðjuna líka og stráði svolitlu paprikukryddi yfir einnig.

Tabbouleh

Tabbouleh prófaði ég að gera um daginn og tókst vel. Vínótek-vefurinn býður upp á ágætis uppskrift af Tabbouleh en ég leyfi minni að fljóta hér engu að síður, því að mér finnst nauðsynlegt að það sé mynta í salatinu:

 • Tvær pakkningar af steinselju

 • Nokkur myntublöð, kannski eins og einn fjórði af pakkningu

 • Lítill laukur (eða hálfur meðalstór laukur).

 • 40 g búlgur, soðnar skv. leiðbeiningum

 • Fjórir tómatar

 • Sletta af ólívuolíu

 • Safi úr a.m.k. einni sítrónu

 • Svolítið salt

Grænmetið er skorið mjög fínt; öllu blandað saman. Í Líbanon fylgja oft heil salatblöð með en þá er meiningin sú, að nota þau til að „skófla“ fínt skornu salatinu á diskinn hjá sér (eða beint upp í sig). Þannig kemur salatblað í stað líbansks pítu-brauðs (sem á ekkert skyld við pítubrauð eins og það þekkist hér á Íslandi) sem menn nota til að skófla hummus á diskinn/upp í sig.

Smá útúrdúr: mig langar að vekja sérstaka athygli á salat-áhöldunum á meðfylgjandi mynd. Þau eru handskorin, komin alla leið frá bænum Jezzine í suður-Líbanon, bæ sem er þekktur fyrir þessa framleiðslu sína – og skyldi engan undra. Sjá hér: http://en.wikipedia.org/wiki/Jezzine og líka hér: http://www.haddadcutlery.com/index.php

En jæja, ég ætlaði nú aðallega að gefa hér uppskrift að Shanklish-salati, alveg hreint unaðslega gómsætu salati sem maður fær oft með til að auka fjölbreytileikann á matborðinu.

Shanklish- salat:

 • 100 gr geitaostur – velta ostinum upp úr því sem Líbanar kalla zaatar – kryddblöndu sem hefur timjan sem undirstöðu (2 teskeiðar) en líka t.d. hálfri teskeið af sumac (má sleppa) og svolitlu salti.

 • Hálfur rauðlaukur, fínt skorinn

 • 2 stórir tómatar

 • Svolítið af steinselju ef vill

 • 2-3 teskeiðar af ólívuolíu

Osturinn brotinn niður og blandað saman við grænmetið.

Borðað sem ídýfa með píta-brauði eða sem meðlæti með mat, en mikilvægt að hafa í huga að þetta salat er bragðmikið og hentar því ekki endilega með öllum mat. Ég notaði það um daginn sem meðlæti með líbönskum kjöt- og hrísgrjónarétti, sem ég kannski skrifa um síðar en var ekki ósvipaður mansaf, palestínskum rétti sem Vínótek hefur fjallað um. Shanklish-salatið var þá sem valkostur við tabbouleh-salatið mitt og hlutföll voru líklega ca. einn á móti fjórum, þ.e. það þarf minna af Shanklish, það gefur hins vegar málsverðinum mikinn lit.

Deila.