Guðrún Jenný bloggar: Venjulegt súrdeigsbrauð

Ég hef áður birt uppskrift af súrdeigsbrauði þar sem ég notaði malt.  Nú er komið að ósköp venjulegu súrdeigsbrauði með hvítu hveiti – já er það ekki annars algjört eitur í dag?  Þeir sem enn borða slíkt og vilja þar með stefna lífi og limum í hættu ættu að prófa þessa uppskrift.

Hráefnalistinn er mjög einfaldur (ath. málin eru amerísk):

  • 1 bolli súrdeigsmóðir
  • 6 bollar hveiti (mér reiknaðist til að það væru u.þ.b. 800 g)
  • 3 bollar vatn
  • 2 tsk salt
  • ¼ tsk þurrger

Á netinu er að finna aragrúa af leiðbeiningum um hvernig maður býr til súrdeigsmóður sjá t.d. hér:

http://www.sourdoughhome.com/index.php?content=startingastarter

En aftur að brauðbakstrinum – á hráefnalistanum hér að framan er ekki að finna eitt atriði sem er þó eitt það mikilvægasta við súrdeigsbakstur og það er þolinmæði.  Súrdeigsbrauð krefst skipulagningar, þolinmæði og tíma.  Það þýðir lítið að koma heim úr vinnu og láta sér þá detta í hug að bjóða upp á nýbakað súrdeigsbrauð með matnum – nema auðvitað þú hafir sýnt fyrirhyggju daginn áður.  Langur hefunartími gerir brauðið alveg sérstakt og ljær því þetta einstaka bragð og áferð sem er svo eftirsóknarverð.

Semsagt daginn áður en ykkur langar í súrdeigsbrauð þá blandið þið saman súrdeigsmóðurinni, hveitinu, vatni, salti og geri.  Smá athugasemd um gerið: Súrdeigspúritanar eru alfarið á móti notkun viðbætts gers þegar baka á ekta súrdeigsbrauð.  Það er hægt að sleppa því, en ég mæli nú engu að síður með því að í fyrsta sinn sem þið bakið súrdeigsbrauð þá setjið þið smá ger út í deigið nú eða ef súrdeigsmóðirin er eitthvað slöpp eins og mín var í þessu tilviki.

Öllu er semsagt hrært saman í nokkuð stórri skál sem er svo breytt yfir og látið standa til morguns (ca 12-15 tíma).  Þetta er fyrsta hefun.  Að henni lokinni þá skulið þið setja smá olíu á hreint borðið og hvolfa deiginu úr skálinni á oliuborið borðið.  Gott er að bera svolitla olíu á hendurnar áður en þið farið að vinna með deigið.  Ath. þetta deig þarf ekki hnoða heldur þurfið það bara aðeins að teygja á því og brjóta það saman nokkrum sinnum – þið finnið þegar það er komið nóg – deigið verður teygjanlegt og það er eins og það lifni við.  Þá er komið að hefun II.

005

 

Ég skelli yfirleitt deiginu ofan á bökunarpappír og set svo pappírinn ofan í skál og svo er breitt yfir.  Nú þarf deigið að hefast í 2-4 tíma allt eftir því hversu heitt er í eldhúsinu hjá ykkur. Þegar um það bil hálftími er eftir að hefunartímanum er kominn tími til að hita ofninn.  Hann þarf að vera mjög heitur helst ekki minna en 250°C.

Til að fá góða fallega skorpu á brauðið þá baka ég það í steypujárnspotti sem ég hef inni í ofninum á meðan hann er að hitna.  Þegar ofninn er orðinn nógu góður þá tek ég pottinn út og set bökunarpappírinn með deiginu og skelli ofan í pottinn – lokið á og inn í ofn í ca 30 mínútur.  Þá er lokið tekið af pottinum og brauðið bakað áfram í ca 10-15 mín.  Passið ykkur þegar þið takið pottinn út hann er sjóðandi heitur.

Best er brauðið nýbakað að sjálfsögðu með smjöri en það geymist vel og er mjög gott ristað í nokkra daga á eftir.

Deila.