Guðrún Jenný bloggar: Brownies með karamellumiðju

Yngri sonur minn fær ekki betri kökur en brownies.  Um daginn prófuðum við að setja karamellu  með þannig að úr varð nokkurs konar brownies lagkaka með karamellumiðju.  Við áttum tvö lítil Daim súkkulaðistykki sem við bræddum í rjóma og bættum sírópi og sykri saman við.

Drengurinn kvað upp þann dóm að hann hefði aldrei bragðað betri köku.  Ég náði varla að smella af mynd áður en hún kláraðist.  Ath. þessi kaka finnst mér best alveg köld.

 • 250 smjör
 • 300 g súkkulaði
 • 200 g sykur
 • 4 egg
 • 1 tsk vanilludropar
 • 170 g hveiti
 • ½ tsk salt
 • ½ tsk lyftiduft

Karamellan:

 • 2 daim
 • 1 msk síróp
 • 100 ml rjómi
 • 2 msk sykur

Hitið ofninn í 180°C.  Klæðið aflangt bökunarform (ca 23 x 33 cm) með álpappír þannig að pappírinn nái vel upp á hliðarnar og hylji botninn að sjálfsögðu.  Bræðið smjörið og notið hluta af smjörinu til að smyrja/pensla álpappírinn í forminu.

Saxið súkkulaðið og þegar smjörið er alveg bráðið hrærið súkkulaðinu saman við þannig að það bráðni í heitu smjörinu.  Þeytið nú saman egg, sykur og vanilludropa þangað til blandan er létt í sér.  Þá er súkkulaði/smjörblöndunni hellt út í og hrært varlega á meðan.  Hveiti, salti og lyftidufti hrært varlega í súkkulaði/eggjablönduna og helmingnum ca hellt í smurt formið.  Bakað í 10 mín og kakan er þá tekin úr ofninum á meðan þið búið til karamelluna.

Brownies

 

Daim og rjómi sett í lítinn pott og hitað ásamt rjóma, sírópi og sykri.  Hrærið stöðugt í á meðan þetta er allt að bráðna og blandast saman – tekur alveg 15 til 20 mín.  Þegar karamellan hefur þykknað aðeins er hún  sett yfir bakaðan botninn og restinni af deiginu hellt yfir.  Allt bakað nú í ca 20-25 mín.  Ef þið viljið hafa kökuna alveg mjúka og svolítið blauta þá er gott að baka hana í 22 mín.  En ef þið viljið hafa hana aðeins fastari í sér þá eru 24-25 mín fínar.  Ath. að allir ofnar eru mismunandi!

Deila.