Davíð Logi bloggar: Gott er að eiga Arak til að dreypa á

Þegar ég heimsótti Líbanon núna í apríl tókst mér það sem mér hefur aldrei tekist áður: að koma heim aftur með svolítið Arak. Hef ég þó margoft reynt áður.Arak má kalla þjóðardrykk Líbana, er þó víða drukkin í Mið-Austurlöndum. Þegar menn setjast upp í bílinn sinn í borgunum niðri við sjóinn um hádegisbilið á sunnudegi og aka upp í fjöllin til að eyða þar eftirmiðdeginum á veitingastað – sem er nánast lögmál, Líbanar halda fast í þessa hefð, enda eiga margir rætur í litlum þorpum uppi í fjöllum – er alsiða að staupa sig með svolitlu Arak, um leið og menn gæða sér á ljúffengum mezzeh-réttum.

Sjálfsagt er praktísk ástæða fyrir þessu, eins og gengur, vinsælir mezzeh-réttir meðal Líbana byggjast á hráu kjöti – gott er og skynsamlegt er að skola slíku niður með 50-60% áfengi til að drepa alla gerla!

Arak svipar til pastís-drykkja annars staðar, hinu gríska Ouzo og jafnvel frönsku Pernod. Blæbrigðamunur er á þessum drykkjum, sykri er ekki bætt í Arak eins og Pernod, en að öðru leyti tilheyra drykkirnir sömu fjölskyldunni, bragðast af anís.

Öll helstu vínframleiðslufyrirtækin í Líbanon búa til sitt eigið Arak. Oft brugga menn líka sjálfir. Sú tegund, sem mér tókst að koma með heim nú í vor, er frá Chateau Musar – en ef eitthvað er að marka upplýsingar á netsíðu ÁTVR er Chateau Musar eina líbanska rauðvínið sem nálgast má í áfengisversluninni hér heima. Þykir nokkuð gott.

Þegar við bjuggum í Líbanon og vorum að ferðast heim í okkar árlegu heimsóknir reyndi ég ítrekað að komast heim með svolítið Arak til að gefa vinum og vandamönnum – nú eða drekka sjálfur. Einu sinni var heimabruggað Arak, sem ég fékk gefins frá vinnufélaga, tekið af mér í Prag. Næst þegar ég reyndi lét ég innsigla flöskuna á flugvellinum í Beirút – en hún var samt tekin af mér í millilendingu í Evrópu, áður en flogið var heim. Núna í apríl brá ég á það ráð að setja flösku ofan í ferðatösku – og þá loksins kom ég þessu alla leið heim, sbr. meðfylgjandi mynd!

Arak er blandað með vatni – einn skammtur af Arak og tveir til þrír af köldu vatni á móti. Gott er að setja ísmola út í líka. Svo er drukkið – með eða án matar. Mikilvægt er að muna að þetta er sterkur drykkur – Arakið frá Chateau Musar hefur 55% alkóhól!

Þjóðarbjórinn Almaza

En sé Arak þjóðardrykkur Líbana þá er óhætt að segja að Almaza sé þjóðarbjórinn þeirra. Allir drekka Almaza. Mér finnst hann að vísu svolítið bragðdaufur en hef gaman af því að segja frá því að íslensk tenging er við þennan annars ágæta bjór. Eigandi fyrirtækisins sem framleiðir Almaza hefur verið ræðismaður Íslands í Líbanon undanfarin fimmtíu ár eða svo og hefur myndað rík tengsl við Ísland. Jabre-fjölskyldan seldi að vísu hollenska Heineken-fyrirtækinu meirihluta fyrir nokkrum árum en kemur þó áfram að rekstrinum.

Hvað með léttvínin? Jú, uppi í Beka-dal er víða að finna gott ræktarland og afraksturinn eru alveg hreint ágætis vín. Langstærst er Ksara en Kefraya er næst stærst. Ég telst enginn sérfræðingur um vín og get illa farið að tjá mig um ágæti einstakra tegunda en heldur þótti mér nú Kefraya alltaf bragðbetra, a.m.k. í flokki þessara ódýru eða meðaldýru vína sem maður fékk oftast.

Í uppáhaldi hjá mér var hins vegar vínið Massaya – og gildir einu hvort við ræðum um rauðvín, hvítvín, rósavín eða Arak. Kannski var það bara út af því að Arak-flöskurnar frá Massaya eru svo fallegar. En það var líka langskemmtilegast að heimsækja vínekrur Massaya. Heimsókn í Ksara var eins og heimsókn í verksmiðju – en heimsókn í Massaya – sem aðallega er til útflutnings, fæst í Frakklandi og víðar – var meira eins og að heimsækja lítið fjölskyldufyrirtæki. Chateau Musar er hins vegar þekktast á Vesturlöndum, fæst í ÁTVR eins og áður sagði og telst nokkuð gott – kostar líka 5.199 skv. vörulista.

 

Deila.