Hallveig bloggar: afmælisloka ungfrúarinnar – BLT!

Heimasætan átti afmæli í dag og fékk því að ráða matseðli dagsins frá a-ö eins og lög gera ráð fyrir. Í morgunmat voru pönnukökur ættaðar úr henni Ameríku, bornar fram með íslenskum jarðarberjum og fleira góðgæti og eftir hádegi var svo haldið stað í lautarferð út í Viðey.

Krakkar geta verið ögn matvandir eins og við þekkjum og stundum er málið  að ekki er sama undir hvaða kringumstæðum viss matvara er á boðstólnum. Dóttir mín segist t.d. ALLS ekki borða beikon.. nema auðvitað ef beikonið er í pasta kolagerðarmannsins (Carbonara) eða í uppáhalds lokunni hennar, hinni margfrægu (og einnig amerísk-ættuðu) BLT loku 😉

BLT er sumsé skammstöfun fyrir Bacon, lettuce and tomato og þessi loka er í rosalegu uppáhaldi hjá okkur!

Það er eiginlega óþarfi að koma með uppskrift af  þessari loku, hún er það einföld. En þannig vill það svo oft vera, einfaldleikinn er hreinlega bestur, en til þess að svo sé verður að passa að öll hráefni séu fyrsta flokks. Þá syngja þau svo fallega saman!

Í lokuna fer:

  • gott snittubrauð, heimabakað, forbakað (frá franska bakaríinu) eða gott úr bakaríi (súrdeigsbaguette frá Sandholti væri örugglega geðveikt!)
  • GOTT beikon. Eins og ég hef áður mælt með þá er besta beikon bæjarins að finna hjá Pylsumeistaranum Laugalæk.
  • Vel þroskaðir tómatar, ekki verra ef það eru smátómatar, s.s. kokteil eða kirsuberja, skornir í sneiðar
  • hágæða mæjónes
  • grænt salat, iceberg er t.d. bara fínt í þetta þó ég noti nú yfirleitt aðeins bragðmeira salat í matargerð.

Hitið brauðin (ef við á) og leyfið þeim að kólna. Steikið beikonið, passið samt að það verði ekki of stökkt. Ég geri mitt beikon yfirleitt á álpappír í ofninum, það tekur um 12 mínútur á 220° að verða passlegt. Setjið beikonið á eldhúspappír til að losna við aukafeitina, og látið það svo líka kólna alveg áður en þið smyrjið samlokuna.

Kljúfið brauðið og smyrjið með mæjónesinu, raðið svo beikoni, tómötum og salati ofan á. Það er gott ef lokan fær aðeins að setja sig áður en hún er borðuð.

Deila.