Labastide-Dauzac 2009

Það væri að bera í bakkafullann lækinn að fara að bölsótast yfir verðþróuninni á bestu Bordeaux-vínunum síðustu árin ekki síst þegar ofurárgangarnir 2009 og 2010 eru annars vegar. Það er hins vegar enn hægt að gera frábær kaup í Bordeaux-vínum, ekki síst þegar horft er til seinni vína bestu vínhúsanna. Þau eru af sömu ekrum og gerð með sama hætti og sjálf Chateau-vínin en yfirleitt er um að ræða vín gert úr þrúgum af yngri vínviðnum af ekrunum eða þeim sem ná ekki alveg upp í að fara í Chateau-vínið. Engu að síður hágæða þrúgur af Grand Cru-ekrum og oftar en ekki alveg hrikalega góð. Hin almenna gæðaþróun í Bordeaux hefur líka gert að verkum að mörgu „önnur“ vínin slaga upp í gæði Chateau-vína fyrir áratug eða svo.

Labastide-Dauzac er annað vín Chateau Dauzac í Margaux, vínhús sem er í eigu hins aldna meistara André Lurton. Árgangurinn frábær og þetta er vel sem stendur fyllilega fyrir sínu – og vel það. Magnað vín sem er nokkurn veginn tilbúið til neyslu þótt það megi alveg geyma í einhver ár. Mæli hins vegar með umhellingu.

Dökkt á lit og dökk, kröftug angan í nefi, þroskuð sólber,, svolítið sultað, í bland við kaffi og vindlatóbak. Nokkuð eikað og kryddað. Mjúkt og unaðslegt í munni, silkimjúk tannín, töluverð jörð. Með bestu steikunum, lambi eða nauti.Þess vegna hreindýri.

4.860 krónur. Mjög góð kaup.

Deila.