Bowie, Coldplay og Cruz á vínflöskum

Gestum um Leifsstöð gefst á næstunni kostur á að bragða spænskum vínum sem framleidd eru í tengslum við söfnunarátakið Whatever it takes. Flöskurnar eru myndskreyttar af og merktar ýmsum þekktum listamönnum, s.s. David Bowie, Coldplay, Penelope Cruz og Pierce Brosnan.

Vínin eru öll frá spænska vínhúsinu Vincente Gandia, sem er eitt af 15 stærstu vínhúsum Spánar. Í fréttatilkynningu frá Bakkusi, sem sér um sölu vínanna hér á landi, kemur fram að Gandia hafi heitið að veita 450 þúsund evrum hið minnsta af sölu þessarar vörulínu í valin verkefni sem styðja hnattræn lykilvandamál – að létta á fátækt, huga að umhverfisvernd og verndun og velferð barna.

Spænsku framleiðendurnir vinna eftir stefnu Whatever It Takes í viðskiptasiðferði. Til frekari upplýsingar og til að sjá hvernig söfnunarfénu er varið, sjá: www.whateverittakes.org/causes

Um er að ræða fimm vín, þrjú rauð (Tempranillo, Syrah og Cabernet Sauvignon), eitt hvítvín og eitt rósavín frá mismunandi svæðum á Spáni. Þetta eru allt ung, þægileg og ávaxtarík vín. Þau eru til sölu í fríhöfninni og kosta þar 1.799 krónur.

Deila.