Ranch dressing

Matur segir margt um menningu þjóða – en spurningin er hvernig eigi að túlka það. Frakkar kjósa vinaigrette-edikdressingu á salatið sitt en Bandaríkjamenn elska Ranch-dressinguna sína. Þrátt fyrir að vera langvinsælasta dressing Bandaríkjamanna síðastliðna rúma tvo áratugi er hún hins vegar nær óþekkt utan Bandaríkjanna.

Allt byrjaði þetta árið 1954 í  Santa Barbara í Kaliforníu þegar þau Steve og Gayle Henson opnuðu bændagistingu, eða það sem á ensku er kallað dude ranch eða guest ranch. Þau notuðu heimatilbúna dressingu á salatið sem fljótlega varð það vinsæl að þau urðu að fara að selja gestum flöskur með salatsósinu góðu.

Og auðvitað endaði þetta á því að stórfyrirtæki keypti uppskriftina og smám saman fór hún að taka breytingum. Þar sem að uppistaðan var í upphafi súrmjólk var þetta kælivara en auðvitað varð að breyta því og Ranch Dressing þróaðist út í nokkuð sæta og ansi hreint fitumikla sósu sem finna má í metravís í öllum verrslunum Bandaríkjanna og hægt er að geyma við stofuhita um aldur og ævi.

Upphaflega Ranch Dressing-uppskriftin stendur hins vegar ennþá fyrir sínu og er miklu betra en sullið sem kaupa má undir sama heiti.

  • 2 ,5 dl súrmjólk eða AB mjólk
  • 3 msk sýrður rjómi
  • 3 msk majonnes
  • 3 msk fínsöxuð flatlaufa steinselj
  • 2 msk fínsaxaður graslaukur
  • 1/2 dl hvítvínsedik
  • 1-2 pressaðir hvítlauksgeirar
  • salt og pipar

Setjið allt nema salt og pipar í skál og pískið saman. (Ranch-púritanar setja í krukku og hrista saman). Bragðið til með salti og pipar. Geymið í ísskáp í að minnsta kosti klukkustund þar til að sósan er borin fram. Hún geymist vel í 2-3 sólarrhringa í ísskáp.

Deila.