Marques de Caceres Bio 2012

Lífræn vín verða stöðugt algengari og stíll þeirra getur verið mjög ólíkur. Hér er á ferðinni rauðvín frá Rioja á Spáni framleitt af vínhúsinu Marques de Caceres. Það er tiltölulega ungt vínhús, stofnað árið 1970 af Forner-fjölskyldunni sem flúði Spán á tímum borgarastríðsins og lagði fyrir sig víngerð í Bordeaux í Frakklandi. Á þar m.a. hið þekkta vínhús Chateau Camensac.

Lengst af hefur Caceres framleitt klassísk Rioja-vín sem líkt og mörg önnur vín svæðisins hafa verið undir ríkum áhrifum af víngerð Bordeaux. Vínið Bio kemur hins vegar úr allt annarri átt. Þrúgurnar koma af 14 hektara lífrænt ræktaðri ekru og þessi fyrsti árgangur vínsins var kynntur á vínsýningunni Vinexpo í júnímánuði.

Stíllinn er um flest frábrugðin hinum hefðbundna Rioja-stíl. Hér er nær að horfa til Beaujolais en Bordeaux enda er vínið framleitt með sömu aðferð og ungu Beaujolais-vínin þar sem koltvísýringi er dælt inn í tankana. Þessi aðferð sem nefnist maceration carbonique veldur því að víngerjunin á sér stað inni í þrúgunum án þess að þær séu pressaðar.

Bio er um margt svipað Beaujolais í stílnum, fersk ávaxtabomba. Það leynir sér hins vegar ekki að hér er notað Tempranillo-þrúgan en ekki Gamay. Dökkur berjaávöxtur í nefi, brómber, sólber, kirsuber, ávöxturinn er þéttur og mjúkur en áferðin létt, á mörkum víns og safa. Þetta er vín sem þarf að neyta á meðan það er mjög ungt og það er best að bera það fram örlítið kælt, kannski við 16 gráður eða svo. Sumarvín.

1.999 krónur.

Deila.