Don Melchor í 25 ár

Þrátt fyrir að vín hafi verið ræktað í Chile um nokkurra alda skeið má segja að víniðnaðurinn í Chile sé enn að mörgu leyti að slíta barnsskónum. Nútíma vínframleiðsla er ekki nema rúmlega þriggja áratuga gömul og þróunin undanfarin ár hefur verið gífurlega hröð – vínhúsin í Chile eru stöðugt að sækja á ný mið, þróa framleiðslu sína, vínræktina sjálfa og uppgötva ný og spennandi svæði.

Concha y Toro er eitt af rótgrónustu vínhúsum landsins og toppvínið þaðan, Don Melchor, var að öðrum ólöstuðum fyrsta ofurvín Chile er það leit fyrst dagsins ljós árið 1988. Það kemur frá hinni 114 hektara Puene Alto ekru í Alta Maipo við rætur Andesfjalla.

Á Vinexpo í Bordeaux fyrr í sumar var haldin mjög athyglisverð smökkun eða „Master Class“ í tilefni af því að 25 ár eru liðin frá því að fyrsti Don Melchor árganurinn leit dagsins ljós. Þetta er fyrsti Don Melchor Masterklassinn sem hefur verið haldinn og það voru víngerðarmaðurinn Enrique Tirado og franski vínráðgjafinn Eric Boissenot sem leiddu smökkunina. Jacques Boisseneot, sem var einn af þeim sem kom að  þróun Don Melchor í upphafi var einnig viðstaddur smökkunina. Boissenot-feðgarnir eru með þekktustu vínráðgjöfum Bordeaux og hafa unnið með nær öllum þekktustu vínhúsunum þar. Jacques Boissenot var fyrir þremur árum valinn sem víngerðarmaður áratugarins af breska víntímaritinu Decanter.

Þetta var því um margt söguleg smökkun og æði forvitnileg – ekki bara vegna þess að hún sýndi þróun Don Melchor vínanna allt frá fyrsta árganginum 1988 heldur líka vegna þess að hún gaf góða innsýn inn í þróun chilenskra vína á þessu tímabili. Á tíunda áratugnum voru miklar fjárfestingar í sjálfri víngerðinni sem vínin endurspegluðu en á fyrsta áratug þessarar aldar átti sér stað bylting á vínekrunum eftir því sem að víngerðarmennirnir öðluðust dýpri skilning á eðli eða terroir einstakra vínekra.

Tirado segir að það hafi verið árði 1997 sem að Jacques Boissenot hafi lýst því yfir að héðan í frá yrði lögð áhersla á að vínin endurspegluðu Puente Alto. Eric Boissenot bætti við að nálgunin við framleiðsluna væri nú nákvæmlega sú sama og stuðst væri við í Médoc. Þá hefur þrúguvalið haft áhrif á þróun vínanna. Í upphafi var vínið hreint Cabernet Sauvignon en einnig voru gerðar tilraunir með Merlot. Þeir Boissenot-feðgar voru hins vegar ekki ánægðir með gæði Merlot-þrúgnanna, rifu upp þann vínvið og gróðursettu Cabernet Franc þess í stað árið 1996. Cabernet Franc hefur verið notað í Don Melchor-blönduna frá 1999 en Cabernet Sauvignon er þó ávallt að minnsta kosti 90%. Þriðja atriðið sem hefur síðan mikil áhrif á stíl hvers árgangs – og víngerðarmennirnir hafa litla stjórn á – er veðurfarið, hvort að árið sé El Nino ár eða La Nina ár en þau veðurfyrirbrigði setja mikinn svip á loftslagið í Chile.

Það var virkilega forvitnilegt að smakka í gegnum þessa árganga. 1988 var enn höfugt, mjög þroskað, mikill reykur og jörð. 1993 þroskað með áberandi myntu, svolítið villt. 1999 varð kúvending í stílnum vínið verður elegantara, ávöxturinn þykkari, 2001 sömuleiðis elegant, vínið að verða franskara í stílnum. Þegar komið var að 2005 og 2007 var stíllinn orðinn mjög Médoc-legur, vínið dökkt, djúpt, eikað með kröftugum tannínum. Bæði árin heit ár og Cabernet Sauvignon-hlutfallið í blöndunni 97-98%

Myndband frá smökkunni má sjá með því að smella hér.

Deila.