Pastasalat „BLT“

BLT stendur fyrir Bacon-Lettuce-Tomato og er yfirleitt í samlokuformi.Þessa hugmynd að pastasalati, sem er byggð á BLT-stefinu, fengum við frá Bandaríkjunum, og mikið rosalega var þetta gott.  Við mælum með því að nota Romaine-salat en það má líka nota t.d. jöklasalat, en þá þarf ekki heilan haus. Þið getið miðað við ca. líter af söxuðu salati. Og auðvitað er best að nota heimagert majonnes.

Þetta salat getur staðið eitt og sér en er líka fínt meðlæti með grilluðum mat.

 • 500 g Fusilli pasta (skrúfupasta)
 • 100-120 g beikon
 • 3 hvítlauksgeirar, saxaðir
 • 4 plómutómatar
 • 1/2 lúka timjan
 • 1 dós sýrður rjómi (18%)
 • 3 msk majonnes
 • 1 lúka fínsaxaður graslaukur
 • 1 haus Romaine-salat, saxaður.
 • ólífuolía
 • salt og pipar

Sjóðið pasta. Geymið.

Hitið olíu á pönnu. Skerið beikonið í bita og steikið í 4-5mínútur á miðlungshita. Saxið tómatana, hvítlauk og timjan og bætið út á pönnuna. Látið malla á pönnunni í nokkrar mínútur og leysið upp skófarnar sem hafa fest við botninn á pönnunni með sleif. Þær gefa bragðið.

Pískið saman sýrðan rjóma, majonnes og graslauk. Saltið og piprið. Blandið pastanu saman við. Blandið tómatablöndunni saman við. Saxið Romaine-salatið og blandið saman við. Bragðið til með salti og pipar ef þarf.

Deila.