Súkkulaðikaka á gamla mátann

Þetta er gamla góða súkkulaðikakan sem mamma gerði alltaf þegar ég átti afmæli.  Það er langt síðan ég bakaði þessa köku og ég ætlaði að vera löngu búin að setja hana inn á vefinn.  Ég stækkaði að vísu uppskriftina og ég nota ekki smjörlíki eins og móðir mín gerði heldur smjör.  Móðir mín notaði heldur ekki vanilludropa en mér finnst persónulega betra að hafa þá í kreminu.

Botninn:

 • 250 grömm hveiti
 • 310 grömm sykur
 • 3 egg
 • 130 grömm smjör
 • 1 1/2 tsk lyftiduft
 • 2 msk kakó
 • 6-8 msk heitt vatn (jafnvel meira eða þar til deigið verður nokkuð mjúkt)

Krem:

 • 300 grömm flórsykur
 • 200 grömm smjör
 • 2 msk vatn
 • 3-4 msk kakó
 • 1 egg
 • 1 tsk vanilludropar (val)

Þeytið saman smjör og sykur þar til það verður ljóst. Bætið eggjunum við einu í einu. Setjið hveitið, lyftiduftið og kakó út í. Þynnið deigið með heitu vatni.

Smyrjið tvö lausbotna form cirka 24 cm og skiptið deiginu á milli þeirra.

Bakið við 180 c í cirka 25-35 mín – fer svolitið eftir ofni eins og alltaf.

Krem:  Þeytið saman flórsykur og mjúkt smjör og bætið síðan egginu út í og vanilludropunum. Smyrjið á botnana.

 

 

Deila.