Pizza með bökuðum tómötum

Sósa úr tómötum er auðvitað notuð á flestar pizzur. Hér er sósan hins vegar gerð með því að baka tómatana ásamt kryddjurtum og hvítlauk og útkoman er algjörlega himnesk.

Það sem að þarf í sósuna er:

  • 500 g  þroskaðir tómatar (við notuðum tvö box af kirsuberjatómötum)
  • ferskar kryddjurtir, t.d. óreganó, basil, timjan
  • nokkrir hvítlauksgeirar, sneiddir niður
  • ólífuolía
  • salt og pipar

Skerið tómatana í tvennt og setjið í eldfast fat ásamt kryddjurtum og niðursneiddum hvítlauk. Hellið ólífuolíu yfir, saltið og piprið. Bakið í ofni við 200 gráður í um klukkustund. Það getur þurft að velta tómötunum um í fatinu í einu sinni eða tvisvar, sérstaklega þarf að passa upp á að hvítlaukurinn dökkni ekki um of.

bakaðir tómatar

Eftir klukkutíma takið þið tómatana úr ofninum.

Gerið pizzadeig samkvæmt þessum leiðbeiningum hér eða ef þið hafið nægan tíma eftir þessum leiðbeiningum hér.

Fletjið deigið út. Takið nú fatið með tómötunum úr ofninum og síið vökvann frá í gegnum sigtið. Dreifið tómötunum og hvítlauknum yfir botninn.

Skerið niður mozzarellakúlur og dreifið yfir botninn. Dreifið basilblöðum yfir. Rífið vel af parmesanosti yfir.

Hitið ofninn í 250 gráður og best er að hafa líka pizzastein í ofninum. Bakið pizzuna í um 10-12 mínútur eða þar til að osturinn hefur bráðnað og botninn er orðinn stökkur.

Takið pizzuna út og dreifið parmaskinkusneiðum yfir.

Fjölmargar fleiri pizzuuppskriftir má finna hér.

 

Deila.